Smá hugleiðing um tryggingargjald og ofskattlagningu

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að velferðarstjórnin er búin að setja Íslandsmet í hækkun skatta almennt. Eflaust telur ríkisstjórnin sig þurfa að mergsjúga alla þá aura sem hægt er að murka útúr kerfinu til að greiða niður erlendar skuldir.

En þessi aukna skattlagning kemur afskaplega illa niður á atvinnulífinu sem er eiginlega búið að bræða úr sér fyrir vikið. Niðurrif atvinnulífsins kemur svo niður á heimilunum og allt endar þetta í skelfingu - fátækrargildru fyrir marga.

Skoðum bara áhrif hækkunar á tryggingargjald (eitt dæmi af mörgum). Þetta er skattur sem settur er á launagreiðendur. Yfirleitt er stærsti útgjaldaliður fyrirtækja einmitt launaliðurinn. Með því að hækka tryggingargjaldið um ríflega 2% hefur verið vegið að störfum.  Eina ráð atvinnurekandans til að koma til móts við slíkar hækkanir er að fækka starfsfólki, jafnvel umfram það sem annars hefði verið gert með tilkomu samdráttar almennt.

Ríkið réttlætir þetta með því að auki þurfi tekjur þessa útgjaldaliðar vegna aukins atvinnuleysis og kostnaðar ríkisins af þeim völdum.

Í raun eru þessi skattlagning - og margar aðrar - til þess að auka frekar á atvinnuleysi og kyrrsetja hjól atvinnulífsins. Þetta er orðin vítahringur.

Það er almenn og reyndar mjög rökrétt kenning, að ef skattar eru hækkaðir umfram þolmörk hagkerfis þá snýst vænt útkoma í andhverfu sína. Slíkt hefur gerst hér. Í raun mundi ríkissjóður hagnast meira ef sköttum væri stillt í hóf og atvinnulífi leyft að komast í gang að nýju. Atvinnutækifærum myndi fjölga og í stað atvinnuleysisbóta gæti fólk komist í viðeigandi vinnu.

All svona hefur dómínó áhrif. Aukin vinna í hagkerfinu þýðir aukin neysla. Aukin neysla er til bóta fyrir hagkerfið. Neysla hefur dregist mikið saman og kemur það beint niður á ríkisstekjum. En ástæðan er einföld. Of mikil skattlagning og niðurskurður.

Svona geta stjórnvöld skapað víti í stað þess að blása lífi í hagkerfið.

Allt leiðir þetta svo til þess að það þrengir verulega að hag margra fjölskyldna og í sumum tilfellum svo mikið að þær hafa ekki lengur til hnífs og skeiðar.

Fátækragildra.

Þetta er ekki velferð - þetta er skömm.

Auknir neysluskattar fara svo beint inn í verðlagið og auka verðbólgu. Draga úr neyslu.

Önnur fátækragildra.

Ofskattlagning er ekki lausn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Björg Hjartardóttir

Takk fyrir góðan pistill - tek undir með þér Lísa.

Anna Björg Hjartardóttir, 11.12.2011 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband