Frá málefnahópum hreyfingarinnar inná þing.

Við undirrituð teljum að meðfylgjandi tillögur að samþykktum fyrir Borgarahreyfinguna
muni tryggja að hreyfingin starfi áfram á þeim grunni sem að hún lagði af stað með,
að hún sé hreyfing en ekki stjórnmálaflokkur.
Við teljum að þessar grasrótarsamþykktir muni tryggja að svo verði, meðan að tillögur
að þeim flokksamþykktum, sem einnig hafa verið lagðar fram, geri hreyfinguna að
tiltölulega hefðbundnum stjórnmálaflokki.”

Baldvin Björgvinsson
Baldvin Jónsson
Birgitta Jónsdóttir
Daði Ingólfsson
Gunnar Waage
Högni Sigurjónsson
Jóhann Ágúst Hansen
Katrín Snæhólm
Lísa Björk Ingólfsdóttir
Margrét Rósa Sigurðardóttir
Margrét Tryggvadóttir
Rakel Sigurgeirsdóttir
Sigurlaug  Ragnarsdóttir
Þór Saari

 __________________________________________________________________________ 

Ég er stolt af framtaki þessu í þágu Borgarahreyfingarinnar sem á að stuðla að því að efla hana sem þá grasrótarhreyfingu sem henni var ætlað að vera. Hreyfingu fyrir þjóðina þar sem allir geta tekið þátt í málefnavinnu og fá til þess stuðning framkvæmdastjóra. Samkvæmt samþykktum þessum er þinghópurinn síðan í tengslum við málefnahópa sem vinna að þeim málefnum sem tekin eru fyrir á þingi. Með þessu móti eru boðleiðir eins beinar og opnar og hugsast getur.

Þetta eru lýðræðislegar samþykktir sem stuðla að því að reyna til hins ýtrasta að ná samhljóm í málum og málefnum, virkja og efla grasrótina og jafnframt koma í veg fyrir ákveðna miðstýringu.

Einnig er ákvæði þess efnis að þingmenn og fyrstu varaþingmenn séu ekki kjörnir í stjórn. Þar er sleginn ákveðinn varnagli á að þingmenn og varaþingmenn geti notað atkvæðisrétt sinn í stjórn hreyfingarinnar í eigin þágu fremur en af heilindum gagnvart Borgarahreyfingunni og þjóðinni sem heild.

Ég hvet alla til að skoða tillögurnar vel fyrir landsfundinn.

Megi Borgarahreyfingin eiga góðan landsfund.

Félagið heitir Borgarahreyfingin og er starfsvæði þess Ísland. Heimili Borgarahreyfingarinnar og varnarþing er í Reykjavík.

Borgarahreyfingin skal lúta lögum nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og
um upplýsingaskyldu þeirra. Öll fjármál hreyfingarinnar skulu vera opinber og aðgengileg almenningi.

Markmið
1. Markmið Borgarahreyfingarinnar er að koma málefnum fyrirliggjandi stefnuskráar sinnar í
framkvæmd og hún skal leggja sig niður og hætta störfum þegar markmiðunum hefur verið náð eða
augljóst er að þeim verði ekki náð. Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki
landsfundar.

2. Aukamarkmið hreyfingarinnar er að hjálpa grasrótarhreyfingum á Íslandi að koma sínum
sjónarmiðum á framfæri.

3. Hreyfingin býður fram til alþingiskosninga til að ná fram markmiðum sínum.

Skipulag
Framkvæmdastjóri
1. Þegar fjárráð leyfa skal hreyfingin ráða framkvæmdastjóra. Verksvið hans verður:
• að starfa með grasrótarhreyfingum á Íslandi og hjálpa þeim að koma boðskap sínum á
framfæri:
o við þingmenn Borgarahreyfingarinnar.
o við þingmenn annarra stjórnmálaafla.
o við aðra grasrótarhópa.
o við stofnanir og fyrirtæki eftir því sem þurfa þykir.
o við almenning í gegnum fjölmiðla og rafræna miðla.
• að auðvelda grasrótarhópum starfsemi sína með því að útvega fundaraðstöðu og annað sem
þarf og er á færi hreyfingarinnar auk þess að miðla reynslu annarra hópa
• að halda utan um hópa sem vilja starfa fyrir hreyfinguna á einn eða annan hátt
• að sjá um fjármál hreyfingarinnar, bæði uppgjör og áætlanir
• að skipuleggja atburði sem tengjast stefnumálum hreyfingarinnar s.s:
o auglýsa eftir framboðum á vegum hreyfingarinnar til nýrra alþingiskosninga ef þurfa
þykir.
o skipuleggja árlegan opinn landsfund hreyfingarinnar.
o aðrir atburðir.

2. Framkvæmdastjóri skal ráðinn á faglegum forsendum ofannefndrar verksviðslýsingar af einni af
þremur stærstu ráðningarstofum landsins hverju sinni er best býður í verkið. Önnur ráðningastofa eða
fagaðili skal meta störf framkvæmdastjóra á hálfs árs fresti eða þegar stjórn hreyfingarinnar óskar
sérstaklega eftir því.

3. Framkvæmdastjóri hefur yfirsýn yfir hópa sem starfa undir nafni hreyfingarinnar og skal halda
opnum samskiptaleiðum við þá, þ.m.t. póstlista.

4. Ekki skal haldið sérstaklega utan um félagaskrá Borgarahreyfingarinnar.

5. Framkvæmdastjóri hefur ekki atkvæðisrétt í neinu máli sem kosið er um á vegum hreyfingarinnar
og skal ekki hafa frumkvæði að stofnun hópa innan hennar. Framkvæmdastjóri skal einnig leitast við
að vera hlutlaus í öllum málum.

6. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegu starfi og fjármálum hreyfingarinnar og er talsmaður
hennar.

Stjórn
1. Stjórn hreyfingarinnar skal mynduð af fjórum aðalmönnum auk fjögurra varamanna. Aðalmenn og
varamenn sitja í tvö ár í senn. Tveir nýir aðalmenn og tveir nýir varamenn skulu kosnir í stjórn ár
hvert. Stjórnarmenn skiptast á að bera titlana formaður, ritari og gjaldkeri, þrjá mánuði hver.
Á fyrsta kjörtímabili stjórnar skulu fjórir aðalmenn og fjórir varamenn kosnir, en þeir tveir
aðalstjórnarmanna með fæst atkvæði á bak við sig skulu víkja að ári liðnu og varamenn taka þeirra
stað.

Þingmenn og fyrstu varaþingmenn skulu ekki taka þátt í kjöri til stjórnar. Nú nær stjórnarmaður kjöri
til þingmennsku þá skal varamaður taka sæti hans.

Að auki skal stjórnin skipuð einum úr þingmannahópi hreyfingarinnar sem skal skipta inn jafnt innan
hvers árs milli þingmanna eftir stafrófsröð. Þingmaður er alltaf almennur stjórnarmaður en ekki ritari,
gjaldkeri eða formaður.

2. Stjórnin skal hittast minnst einu sinni í mánuði, einungis til að meta störf framkvæmdastjóra og, ef
tilefni er til, óska eftir mati á störfum hans af óháðum, faglegum aðila, sem ekki skal vera
ráðningarfyrirtækið sem réði hann upphaflega. Ef matsaðilinn metur framkvæmdastjórann óhæfan til
að starfa áfram skal honum sagt upp og nýr framkvæmdastjóri ráðinn í hans stað á sama hátt og áður er getið.

3. Stjórnin skal leitast við eftir fremsta megni að vera sammála í niðurstöðum sínum. Náist ekki
samstaða um mál skal því frestað til næsta stjórnarfundar. Ef ekki næst samstaða á þriðja fundi skal
nefndin greiða atkvæði um ágreiningsmálið.

4. Stjórn skal bera ábyrgð á fjárreiðum Borgarahreyfingarinnar, skuldbindingum hennar og fullnustu
þeirra.

5. Ekki skal fela öðrum en framkvæmdastjóra ábyrgð á fjárreiðum eða rekstri hreyfingarinnar.

6. Til að ákvarðanir stjórnarfundar séu lögmætar skulu að lágmarki 3/5 hluti stjórnar sitja fundinn.
Fundargerðir stjórnarfunda, þar með talið fundir stjórnar og þinghóps, skal birta á Netinu strax að
fundi loknum og athugasemdir við þær skulu vera opinberar.

7. Stjórnin skal gæta trúnaðar gagnvart hreyfingunni í störfum sínum.

8. Stjórnarmönnum er heimilt að gegna stjórnarsetu í mesta lagi tvö ár samfellt, með tveggja ára hléi
þar á eftir. Enginn skal sitja í stjórn lengur en samtals fjögur ár. Stjórnarseta skal vera launalaust sjálfboðastarf án nokkurra fríðinda. Ferðakostnaður stjórnarmanna utan höfuðborgarsvæðisins skal
greiddur af hreyfingunni.

Nefndir
1. Landsfundarnefnd er eina fasta nefnd hreyfingarinnar. Öllum er heimilt að taka þátt í henni.
Landsfundarnefnd skal vinna með framkvæmdastjóra að skipulagningu landsfundar.

2. Aðrir sem vilja starfa að þeim málefnum hreyfingarinnar sem koma fram í stefnuskrá eða aðstoða
við innra starf eða málefnavinnu geta myndað hópa innan hennar og skulu njóta stuðnings
framkvæmdastjóra við störf sín.

3. Hópar, eða meðlimir hópa tengdir hreyfingunni eru ekki talsmenn hennar, en er það eitt skylt að
upplýsa framkvæmdastjóra um framgang hópanna eftir bestu getu og geta óskað eftir aðstoð hans ef
með þarf.

Landsfundur
1. Landsfund skal halda einu sinni á ári. Þar skal kosið um hvort hreyfingin verði lögð niður, og nægja
tveir þriðju hlutar atkvæða til þess. Að öðru leyti setur framkvæmdastjóri dagskrána í samstarfi við
landsfundarnefnd hreyfingarinnar.

2. Landsfundur skal haldinn í september ár hvert. Landsfundur er löglegur ef til hans er sannanlega
boðað með sex vikna fyrirvara. Í landsfundarboði skal koma fram dagskrá fundar og breytingartillögur
á samþykktum þessum sem leggja á fyrir fundinn. Framkvæmdastjóri skal boða til landsfundar.
Landsfundur hefur æðsta vald í öllum málum Borgarahreyfingarinnar. Allir kjörgengir Íslendingar
hafa á landsfundi Borgarahreyfingarinnar auk seturéttar, málfrelsi, tillögurétt og kosningarétt.
Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki landsfundar.

3. Landsfund skal boða með tilkynningu á vefsíðu hreyfingarinnar, með tölvupósti á alla skráða
netfangalista á vegum hreyfingarinnar og með auglýsingu í að minnsta kosti einum útbreiddum
prentmiðli.

4. Stjórn Borgarhreyfingarinnar er kosin á landsfundi.

5. Landsfundur samþykkir fundarsköp og skal landsfundi og öðrum fundum Borgarahreyfingarinnar
stjórnað í samræmi við þau.

6. Dagskrá landsfundar skal vera:

1. Kosning fundarstjóra
2. Skýrsla stjórnar
3. Breytingar á samþykktum
4. Stjórnarkjör
5. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar
6. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga
7. Önnur mál

7. Til aukalandsfundar skal boða óski tveir af fimm stjórnarmönnum þess, eða 7% af fjölda þeirra er
greiddu hreyfingunni atkvæði í undanfarandi alþingiskosningum. Aukalandsfundur er löglegur ef til
hans er sannanlega boðað með tveggja vikna fyrirvara.

Reglur um aukalandsfund eru samhljóða reglum um landsfund nema óheimilt er á aukalandsfundi að
breyta lögum þessum. Dagskrá landsfundar tekur breytingum eftir því til hvers hann er boðaður. Sé
aukalandsfundur boðaður vegna vantrauststillögu á stjórn skal skipta út liðnum “Stjórnarkjör” fyrir
liðinn “Vantrauststillaga á stjórn.”

Sé vantrauststillagan samþykkt skal haldinn aukalandsfundur að sex vikum liðnum til að kjósa nýja
stjórn.

8. Á landsfundi skulu kjörnir tveir fulltrúar í stjórn og tveir til vara til tveggja ára í senn.
Hver kjósandi skal skrifa nöfn fjögurra eða færri frambjóðenda til stjórnar á kjörseðil. Atkvæði skulu
talin fyrir opnum tjöldum. Þeir tveir sem hljóta flest atkvæði skulu teljast rétt kjörnir í stjórn. Næstu
tveir að atkvæðavægi taka sæti í varastjórn. Allir kosningabærir landsmenn geta gefið kost á sér til setu í stjórn.

Þinghópur
1. Hlutverk þingmanna er að vinna að stefnumálum Borgarahreyfingarinnar á Alþingi.

2. Í öllum málum skulu þingmenn vera í tengslum við þau grasrótaröfl sem hafa með viðkomandi
málaflokk að gera. Þingmenn skulu boða til opins fundar a.m.k. einu sinni í mánuði. Slíkir fundir
skulu einnig haldnir utan höfuðborgarsvæðisins þegar hægt er.

Starfsfólk
1. Framkvæmdastjóri skal ráðinn til að sjá um daglegan rekstur hreyfingarinnar auk annarra verkefna
sbr. starfslýsingu. Framkvæmdastjóri getur ráðið starfsmenn í samráði við stjórn. Allir trúnaðarmenn
hreyfingarinnar (stjórn og framkvæmdastjóri) skulu gera grein fyrir tengslum sínum við fólk sem
þiggur greiðslu frá hreyfingunni fyrir störf í hennar þágu.

2. Stjórn Borgarahreyfingarinnar skal semja við framkvæmdastjóra um laun sem skulu þó eigi vera
hærri en þrefaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna.

3. Framkvæmdarstjóri skal semja við annað starfsfólk um laun sem skulu þó eigi vera lægri en eins og
hálffaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna og ekki hærri en þrefaldur sami taxti.

Alþingiskosningar
1. Hlutverk frambjóðenda til alþingiskosninga er að koma stefnumálum hreyfingarinnar á framfæri
samkvæmt gildandi lögum um kosningar.

2. Kosningastjóri skal ráðinn á sama hátt og framkvæmdastjóri og eigi síðar en þremur mánuðum fyrir
alþingiskosningar. Stjórnin semur við kosningastjóra um laun sem skulu þó eigi vera hærri en
þrefaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna.

3. Allir kjörgengir íslendingar geta gefið kost á sér á framboðslista í hvaða kjördæmi sem er.
Framboðsfrestur rennur út átta vikum áður en skila þarf framboðslistum til kjörstjórna. Þegar
framboðsfrestur rennur út skal kosningastjóri kanna í hvaða kjördæmi og sæti frambjóðendur vilja bjóða sig fram og gera drög að framboðslista eftir þeirra óskum. Þessari grein má einungis breyta með
einróma samþykki landsfundar.

Eigi síðar en sjö vikum fyrir kosningar skal kosningastjóri boða til fundar sem ákveður endanlega
uppröðun framboðslistana. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundar og drög að framboðslistum. Á
fundinn skal boða alla á skráðum netfangalistum á vegum hreyfingarinnar og skal hann auglýstur á vef
hreyfingarinnar. Allir kjörgengir Íslendingar hafa þar auk seturéttar, málfrelsi, tillögurétt og
kosningarétt.

Við ákvörðun á uppröðun framboðslista skal fundurinn starfa í anda jafnræðis hvað varðar kyn, aldur
og búsetu. Ef alþingiskosningar bera brátt að má kosningastjóri í samráði við stjórn hliðra til
tímamörkum eins og nauðsyn krefur.

Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki landsfundar.

4. Dagskrá félagsfundar sem ákveður framboðslista skal vera:

1. Kosning fundarstjóra
2. Kynning á drögum framboðslista
3. Umræður um uppröðun framboðslista
4. Breytingar á framboðslistum
5. Kosning um framboðslista


Fjárreiður
1. Borgarahreyfinguna má ekki skuldsetja með lántökum. Þó má taka skammtímalán ef algerlega er
tryggt að tekjur hreyfingarinnar geti staðið undir því.

2. Framkvæmdastjóri Borgarahreyfingarinnar skal gera fjárhagsáætlun um nauðsynleg fjárútlát og
fjárskuldbindingar hreyfingarinnar á komandi almanaksári og bera undir stjórn. Tekið skal sérstaklega
fram að óheimilt er að nota fé hreyfingarinnar í nokkurs konar munað eða fríðindi.

3. Bókhald Borgarahreyfingarinnar skal vera opið öllum og sýna hverjir styrkja hreyfinguna. Öllu fé
Borgarahreyfingarinnar skal sannanlega varið í samræmi við tilgang hennar.

4. Þriðjungur af tekjum hreyfingarinnar á hverju ári skal settur í kosningasjóð.

5. Þeir sem fara með fjárreiður hreyfingarinnar skulu ávallt leita tilboða sem víðast. Öll fjárútlát og
fjárskuldbindingar, umfram upphæð sem miðast við mánaðalega húsaleigu hreyfingarinnar, þurfa
undirskrift framkvæmdastjóra og gjaldkera.

Félagsslit
1. Þegar tilgangi Borgarahreyfingarinnar er náð eða augljóst er að honum verði ekki náð mun
hreyfingin hætta starfsemi og hún lögð niður. Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki
landsfundar.

2. Ákvörðun um slit Borgarahreyfingarinnar verður tekin á landsfundi með atkvæðum a.m.k. 2/3 hluta
fundarmanna. Við slit hreyfingarinnar skal skila afgangsfé til þeirra sem lögðu fram fé tólf mánuði fyrir slit hennar í hlutfalli við framlög þeirra. Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki
landsfundar. Kosningasjóður skal allur fara til ríkissjóðs.

Lagabreytingar
1. Samþykktum Borgarahreyfingarinnar má aðeins breyta á landsfundi. Breytingartillaga telst samþykkt ef hún hlýtur 2/3 greiddra atkvæða á landsfundi nema annað sé tekið
fram í samþykktum þessum.

2. Allar tillögur til breytinga á lögum þessum skulu sendar til stjórnar eigi síðar en tveimur vikum
fyrir boðun landsfundar. Allir kjörgengir Íslendingar geta lagt fram breytingartillögur á samþykktum
þessum. Stjórn skal sannanlega birta breytingartillögurnar á vefsíðu hreyfingarinnar og með skeyti á
alla á skráðum netfangalistum á vegum hreyfingarinnar eigi síðar en sex vikum fyrir þann landsfund
sem þær skulu teknar fyrir á.


mbl.is Borgarahreyfingin sem grasrótarafl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Much Ado About Nothing...

Steingrímur Helgason, 10.9.2009 kl. 00:52

2 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég óska hreyfingunni góðs gengis.

Ég reikna með, að stefna hreyfingarinnar, sé mótuð af landsfundi - leiðréttu mig eff þ.e. rangt - og að landsfundur hafi heimild, til að gera breytingar á stefnu? Þetta atriði, kemur ekki fram.

Það verður áhugavert að fylgjast með því, hvernig mun ganga að laga togstreytuna milli þingmanna, og undirliggjandi félags.

En, þingmenn hafa mjög sterka stöðu, eins og lögum er háttað, þ.s. þeir verða ekki settir af, nema ef á þá hefur fallið dómur og dómsorð, kveður á um ærumissi. Félag, getu því ekki knúið þingmenn, einstaka, eða fleiri, til afsagnar - alveg burtséð frá því hve óánægt félagið er orðið.

Það verður því ekki framhjá því horfið, að klassísk togstreyta milli einstaklinga, hefur farið af stað, enda eru þingmenn hreyfingarinnar orðnir þjóðþekktir einstaklingar, og komnir með persónufylgi + eigin fylgismenn.

Þetta, er eitthvað sem ég skildi aldrei, þegar ég fylgdist með umræðum siðastliðið haust, m.a. á mjög áhugaverðri síðu í Wiki grunni, að fólk hafi ekki áttað sig á, að á Alþingi er að finna margar freistingar.

Einhvern veginn, virðist fólk, hafa virkilega haldið, að ekki þyrfti annað til, en að fá fólk af götunni, og að það yrði einhvernveginn "immune" alveg á óútskýrðan hátt, fyrir þeim hættum sem þar er að finna.

En, valdið spillir - eins og sagt er og er hreinn sannleikur - og enginn, ekki nokkur lifandi maður, getur vitað það fyrirfram, áður en viðkomandi hefur það reynt persónulega, hvernig viðkomandi muni bregðast við þeim aðstæðum og freystingum, sem sannarlega er þar að finna.

Fólk, einhvern veginn, gleymdi alveg sögunni, sem er sú, að í gegnum tíðina, hafa fjölmargar grasrótarhreyfingar, orðið að þingflokkum, í gegnum tíðina, síðan horfið á spjald sögunnar.

Það, að grasrótarhreyfing fari á þing, er ekki nýtt.

Hvað gerir Borgarahreyfinguna öðruvísi?

Það að lofa, að leggja sig niður, gerir hana ekkert heilagari - per se, né óheilagari, ef út í það er farið. Enda, hafa aðrar hreyfingar, lagt sig niður, ekki endilega skv. stefnu, en hreyfingar hafa sannarlega komið og farið, og það margoft.

Þetta er stóra spurningin.

--------------------------------

Að mínum dómi, liggur spilling, í eðli mannsins. Ávallt þarf að vera á varðbergi.

Hún er af mörgu tagi, sbr. sín hreinasta mynd, þjófnaður og innbrot.

Um daginn, kom út skýrsla, um annars konar spillingu, þ.e. ljót mál sem áttu sér stað á stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga, og hafa valdið fólki sem átti rétt á ummönnum og umhyggju, þess í stað þjáningum.

Kirkjunnar þjónar, hafa stolið úr safnaðarsjóðum, jafnvel framið verri afbrot.

Starfsfólk verslana, hefur stolið frá eigin vinnuveitanda.

Tja, og já, stjórnmál bjóða hættu heim, í formi óeðlilegrar fyrirgreiðslna til ríkra einstaklinga, sem dæmi, valdafíkni og ímsra annarra kvilla, sem eru þekktir.

---------------------------------

Mín skoðun, er sú að stjórnmálaflokkar, séu ekkert ljótari fyrirbæri, en hvaða aðrar skipulagseiningar.

En, eins og fyrirtæki þurfa að vera á varðbergi, gagnvart þjófnaði, sjálftöku eigin bossa og starfsmanna í aðstöðu til slíks,,,þá þurfa stjórnmálaflokkar, að vera á varðbergi gagnvart þeim sem hygla eigin vinum með óeðlilegum hætti og valdafíkn. Fleira má sannarlega nefna.

En, þetta er grunnpunkturinn.

Það þarf ávallt að vera á varðbergi, gagnvart spillingu, sama hver hún er.

Borgarahreyfingin, myndi gera mikið gagn, ef hún myndi fyrir sitt leiti, búa til módel fyrir stjórnmálaflokk, sem væri heilbrigðara, en þau sem fyrir hendi hafa verið áður.

Reyndar, held ég, að það gæti einmitt verið, stóri tilgangur hreyfingarinnar, ef hún er enn að leita að hlutverki.

Ég legg því til, að hreyfingin vinni að því að úthugsa hvernig stjórnmálaflokkar framtíðarinnar, eiga að starfa.

Slíkt starf, gæti endað með formlegri stofnun stjórnmálaflokks, eða samruna við annann. Óþarf að ákveða slíkt fyrirfram.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 10.9.2009 kl. 00:52

3 identicon

Ekki vitlausar tillögur hjá Einari. Mætti alveg taka mið af þeim, að einhverju leiti.

Skorrdal (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 03:03

4 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Þetta eru allt góðir og sannir punktar hjá Einari enda maður með langa reynslu og góða þekkingu á stjórmálafræðinni. Ég vil byrja á því að benda á að fram kemur í samþykktum að þeim verði einungis breytt á landsfundi. Svo vissulega hefur landsfundur sitt vægi í þeim efnum.

Samþykktunum er ætlað að reyna, eftir besta megni, að forðast miðstýringu og flokksræði. Framkvæmdarstjóri er t.d. hlutlaus og hefur ekki völd til ákvarðanatöku um mikilvæg málefni. Stjórn fylgist með störfum hans og metur hverju sinni. Á landsfundi eru kjörnir nýjir fulltrúar til stjórnar. Þó aldrei meirihluti hverju sinni. Að þingmaður sitji sem fimmti stjórnarmaður - en þó sé reglulega skipt um - skapar frekara lýðræði innan stjórnar. Einnig á þá stjórn auðveldara með að skoða mál og málefni frá fleiri hliðum á fundum sínum þar sem þar eru 4 fulltrúar almennings/grasrótar og einn fulltrúi þingflokks. Einnig er stefnan að ná ávalt samkomulagi um málefni ellegar sé þeim frestað í ákveðin tíma. Mun þá annar þingmaður vera kominn til stjórnarsetu ef því er að skipta.

Það er von okkar að geta einmitt fundið heilbrigðara módel fyrir stjórnmálahreyfingu en þau sem fyrir eru. Ég vona að þetta skref í rétta átt.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 10.9.2009 kl. 09:52

5 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Passið ykkur þó á, að þ.e. einnig stundum þörf á að hafa getu til að taka ákvörðun, með skjótum hætti.

Ef við hugsum til baka, til Weimar lýðveldisins, þá var það ekki skortur á lýðræði innan þess, sem varð því að falli, heldur vandræði við ákvarðanatöku sem leiddi til alvarlegra vandræða við það að ráða fram úr þeim vandamálum, sem þjóðin stóð frammi fyrir.

Útkoman, var að þjóðin gaf á endanum, sjálft lýðræðið upp á bátinn.

------------------------------

Þ.e. sannarlega gott, að leggja áherslu á samstöðu, en ef fyrirkonulagið leiðir til þess, að hröð ákvarðanataka sé íllmöguleg eða jafmvel ómöguleg, þá getur það einnig orðið að alvarlegu sjálfstæðu vandamáli.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 10.9.2009 kl. 12:12

6 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Einmitt þessvegna leggjum við upp með sjálfstæði þingmanna til að taka ákvarðanir fremur en að þeim sé skylt að taka ákvarðanir miðlægt þ.e. í samræmi við afstöðu stjórnar. Þetta er einmitt mikilvægt. Að treysta þingmönnum sínum til að vera vel upplýstir um málefnin sem tekin eru fyrir og greiða atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 10.9.2009 kl. 14:41

7 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Ég rakst hérna á áhugaverða athugasemd á bloggsíðu Sigurðar Hrellis. Mér í raun datt aldrei til hugar að frökk framganga þessara 12 hefðu með fjármagn að gera, frekar þau völd sem fyrri tillögurnar styðja!

Gott þætti mér ef einhver þeirra sem hafa ausið skömmum yfir okkur sem vilja valddreifingu fremur en miðstýringu geta útskýrt þetta fyrir mér aðeins nánar.

Athugasemdirnar:

Grétar, innan grasrótar eru iðulega hópar og grúppur sem vinna í sameiningu að tilteknum málum. Innan BH varð til einn slíkur þegar niðurstaða kosninganna lá fyrir. Hópurinn lét ekki deigan síga heldur stofnaði nýtt félag á nýrri kennitölu um sig og sína starfsemi. Það út af fyrir sig hefur ef til vill ákveðnar skýringar en hitt að sá hópur skyldi gefa mörgum stofnfélögum og réttkjörinni stjórn langt nef hlýtur að flokkast sem ólýðræðisleg vinnubrögð. Því spyr ég hvort Þinghópur BH sé framlenging á Borgarahreyfingunni að þínu mati eða öfugt? Hvort kom á undan eggið eða hænan?

Sigurður Hrellir, 5.9.2009 kl. 13:52

4

Í svari Sigurðar (nr. 3) kemur akkúrat fram mergur málsins. Þessi hópur sjálfstæðra frambjóðenda (12 menningarnir) vilja stjórna hvernig þinghópurinn starfar og þolir ekki að hann hafi stofnað þinghóp á sérstakri kennitölu sem einungis var gert til að geta stofnað bankareikning til að taka á móti ráðstöfunarfé þingflokksins. Takið eftir að þetta er fé til afnota fyrir þinghóp ekki stjórnmálaafl, BH er ekki enn komið á fjárlög og hefur því ekki fengið neina styrki. Ef ég þyrfti að svara fyrir hvernig svona fjárframlög yrðu notuð hefði ég líka stofnað sérstakt félag um það en ekki lagt það í hendurnar á hreyfingu sem hefur ekki enn samþykkt lög um sjálfa sig.

HanYi (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 14:03

5 Smámynd: Sigurður Hrellir

HanYi, það hvarflar ekki að mér að þinghópurinn noti fé í annað en það sem tengist störfum þeirra á þinginu. Hins vegar hefði verið meiri sátt um þá lausn að þau fengju eigin bankareikning á nafni BH þar sem þau sjálf hefðu prókúru og enginn annar. Þetta snýst enn og aftur um lýðræðisleg vinnubrögð og að ræða málin!

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 10.9.2009 kl. 17:56

8 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Við skulum vona, að þingmenn hreyfingarinnar, fari ekki annað - en krafan, um hollustueyð, sínist mér, einmitt geta framkallað slíkt "Bæ - Bæ".

Þ.e. ekkert í lögum, hefðum eða sögu Alþingis, eða Íslands, sem kemur í veg fyrir, að þau einfaldlega, stofni eigin þingflokk og síðan hreyfingu.

Það væri ekki í fyrsta sinn, er nýr flokkur klofnar.

Vandi hreyfingarinnar, er að án þingmanna, minnka mjög verulega möguleikar hennar, til að hafa áhrif. Án þingflokks, minnkar einnig aðgangur hennar að fjármagni, vart hægt að sjá t.d. að hún geti haft nokkra launaða starfsmenn.

Þ.e. því nokkuð stórt atriði, að ná samkomulagi milli þingflokks og grasrótar.

Ég hugsa, að krafa um hollustueið, sé ekki skynsamleg, nema þ.sé einmitt tilgangurinn, að hafa enga þingmenn.

Má vera, að hreyfingin, án þingmanna, geti aflað sér þeirra í næstu kosningum, en þá þarf hún að búa við það, á meðan að hafa einungis aðgang að framlagi einstaklinga - hvort sem um vinnuframlag er að ræða eða fjárframlög.

En, að sjálfsögðu, ef þau stofna aðra hreyfingu, með svipuð yfirlíst markmið, þá dreifast kraftarnir, og um leið verður það enn erfiðara, fyrir þ.s. eftir er af Borgarahreyfingunni, að ná til fólks.

-----------------------------

Það eina skynsamlega, virðist mér, að þeir sem unnu sigur á laugardaginn, nái samkomulagi við þingmennina, því annars er hætta á að sá sigur verði æði Pyrrosarlegur.

Eins og ég hef áður sagt, er staða þingmanna gríðarlega sterk, skv. ísl. lögum og hefðum, sem skírir hvers vegna, þingflokkar verða oftast nær, mjög ráðandi.

Augljóslega, þurfa þingmenn að vera viljugir, til að slá af á móti.

--------------------------------

Ein hugsanleg aðferð, gæti verið, að láta almenna netkosningu á meðal fylgismanna, skera úr, þegar alvarleg deila um tiltekna ákvörðun þingmanns eða þingmanna, kemur upp.

Þannig, að í stað þess, að ef stjórn metur að þingmenn eða þingmaður gangi á svið við stefnu hreyfingar, þá sé hægt að leisa þann ágreining, með slíkri kosningu.

Sú aðferð, ætti að uppfilla allar hugsanlegar kröfur um sanngirni, o.s.frv.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 13.9.2009 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband