27.11.2011 | 16:57
Hátíð ljóss og friðar
Kæru samlandar nær og fjær.
Aðventan er gengin í garð, hátíð ljóss og friðar. Búið er að tendra ljósin á jólatrénu á Austurvelli frá vinum okkar norðmönnum. Eða eigum við kannski að segja núna vinum okkar og samlöndum í Noregi. Allir sem það geta setja aðventuljós í glugga og skreyta jafnvel aðventukrans. Hlusta á ljúfa jólatónlist og finna frið og gleði í hjarta sínu.
Þó giska ég á að færri eigi auðvelt með að finna þessa gleði þetta árið en á sama tíma í fyrra, eða árið þar áður.
Hjálparsamtök reyna eftir megni að safna fjármagni til að létta þeim lífið sem eiga erfitt fyrir þessi jól. Því miður fjölgar þeim hratt. Hraðar en flesta órar fyrir.
Flest okkar hér á Íslandi hafa vanist því að búa við öryggi. Þurfa ekki að bera byrgðar vonleysis og kvíða daglangt. Við höfum getað hlakkað til jólanna. Brosað við börnunum okkar og veitt þeim hátíð ljóss og friðar.
Hvað er fallegra en litla barnið sem ljómar af tilhlökkun yfir öllu sem tengist jólahátíðinni. Spenningurinn lýsir af fallega litla andlitinu þegar mamma og pabbi undirbúa hátíðina. Kíkir í litla skóinn sinn þegar jólasveinarnir arka til byggða. Vaknar upp umvafið ást og öryggi.
Það stendur stórt grátt steinhús við Austurvöll. Nálægt jólatrénu góða. Þetta gráa steinhús köllum við Alþingishúsið.
Þarna inni ríkir ekki hátíð ljóss og friðar heldur sundrung og spilling.
Ákvarðanir teknar innan þessara gráu veggja hafa sundrað fjölskyldum og rænt íslenskan almenning öryggi, trausti og von. Þarna eru sett fram lög sem heimila fjármagnsskrímslinu að arðræna fólk, taka eignir þess og heimta meira.
Litla barnið sem fyrir þrem árum átti heimili, mömmu og pabba, öryggi og gleði - óhemju að tilhlökkun með tindrandi augu, hefur misst þetta allt. Heimilið farið. Fjölskyldan sundruð. Kvíðinn og óttinn hefur heltekið lífið í kringum það. Það er jafnvel svangt. Hefur jólasveinninn gleymt þessu barni líka? Vaknar það í spenningi og kíkir í lítinn skó?
Við Austurvöll sitja stjórnmálamenn í gráa húsinu. Þeir gætu svo auðveldlega ef þeir hefðu kjark og þor - gefið þessu litla barni (og öllum hinum) von, gleði og öryggi að nýju.
Tendrað stjörnurnar í litlu augunum.
Sett það í forgang sem virkilega skiptir máli.
Börnin. Fólkið í landinu.
Ég á mér jólaósk. Hún er sú að þeir sem geti snúið við þessu ferli - geri það eða fari ella.
Jólaóskin mín er von fyrir okkur öll og gleðistjörnur í litlum barnsaugum með metta maga.
Ég óska ykkur gleðilegrar aðventu.
Kveikt á jólatré á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.