14.9.2009 | 12:12
Auðvelt að leysa úr ágreiningsefnum ef þau eru ekki til staðar.
Margir spyrja sig nú þeirra ágengu spurningar - hvað verður um Borgarahreyfinguna? Verður klofningur milli þingflokks og hreyfingar?
Margir þeir sem utan við standa horfa til baka í gömlu fræðin og telja óhugsandi að farsælt áframhald geti orðið við slíkan klofning. Ég get hinsvegar ekki verið sammála.
Annarsvegar höfum við hörkuduglega þingmenn sem hafa staðið sig með prýði og sóma á nýafstöðnu sumarþingi. Vissulega kom upp ágreiningur vegna ESB málsins - en allir flokkar aðrir voru einni klofnir í afstöðu sinni til þessa málefnis. Þeir höfðu hinsvegar reynslu og þroska til að láta það ekki eyðileggja flokka sína innanfrá. Enda hafa ekki verið háværar innanhússdeilur um málefnið á bloggsíðum annarra flokka hvað varðar þetta málefni.
Það vita allir að á erfiðum tímum þurfa þingmenn sterkt bakland. Bakland sem styður þá í oft erfiðri upplýstri ákvarðanatöku. Til þess er nauðsynlegt að baklandi sé tilbúið til að sýna sveigjanleika og gefa eftir ef svo ber við. Við skulum ekki gleyma því að stór baráttumál á stefnu Borgarahreyfingarinnar hafa enn ekki komið til umræðu innan þings. Ég er hinsvegar viss um að þingmenn Borgarahreyfingarinnar vinna áfram í þágu fólksins í landinu að málefnum heimilanna svo eitthvað sé nefnt - og síðan öðru því sem á þeirra stefnuskrá er.
Nú vill svo til að ég hef fylgst með þeim deilum sem nýkjörinn formaður stjórnar BH talar um. Þessar deilur snérust fyrst og fremst að þingmönnum vegna ESB afstöðu en gerðust bara illvígari með tímanum innan stjórnar og fámennrar virkrar grasrótar. Þeir sem deildu hvað harðast sitja nú í stjórn - aftur - eftir að hafa sagt af sér, sagt sig úr hreyfingunni, komið inn aftur og boðið sig fram til stjórnar. Í skjóli nýrra samþykkta sem að mestu voru unnar af þeim sjálfum og innihalda stíf atriði um aðkomu þingflokks að málum og miðstýringu frá stjórn.
Þingmenn allir (utan Þráins sem þá þegar var horfin frá darraðadansinum) sátu sáttafundi um samstöðu hreyfingarinnar. Allt kom fyrir ekki - ákveðin valdabarátta var hafin og henni var ekki hnikað. Þegar tillögur voru kynntar og ljóst var að þær innihéldu óvægin atriði, stífa miðstjórn og jafnvel brot á stjórnarskrá, sá þingflokkur sér ekki annarra kosta völ en að kalla til meðal annars utanaðkomandi ráðgjafa til að semja nýjar tillögur út frá fyrri tillögum. Þetta var vissulega leið til sátta enda voru í tillögunum leiðir til að styðja við grasrót og taka virkilega á þeirri vinnu sem framundan var.
Það sem var kannski ólíkt með tillögunum var að ofurvald stjórnar og stýring var dempruð verulega og settur inn framkvæmdastjórni sem nokkurskonar miðstýring, þó án valda. Vissulega hefði verið betra að útfæra margt betur og hafa virka miðstjórn, en til þess vannst ekki tími.
Ég mætti síðan á Landsfund sem áhorfandi, því ég hef ekki skráð mig í hreyfinguna og datt ekki til hugar að gera það 5 mín. í landsfund bara til að notfæra mér atkvæðisrétt. Á landsfundi varð ég vitni að aðförum meðlima hreyfingarinnar úr pontu sem ég vil ekki hafa orð um. Flestir voru þetta frambjóðendur til nýrrar stjórnar og þeir sem hæst höfðu látið óánægjuraddir dynja í fjölmiðlum og á bloggsíðum. Tillögur þingmanna sem og sáttaleið voru teknar af lífi, bæði úr pontu og sem og í kosningum. Háværar voru raddir um að allt sumarið hefði tekið í að vinna að þessum tillögum og það væri lítilsvirðing að koma með aðrar þó svo þær væru unnar af m.a. fólki utan hreyfingar til álitsgjafar. Innihald þeirra var lítið rætt - enda var aldrei ætlunin að láta af valdabaráttunni og leita sátta.
Eðlilega er stjórn sátt við sitt framlag og á væntanlega auðvelt með að leggja deilur til hliðar, enda hefur stjórn og virkur hluti grasrótar unnið eigin baráttu og engan til að deila við lengur. Með þessu útspili er ljóst að bakland þingmanna er ekki bakland þingmanna heldur eiga þeir að hoppa eins og miðstýrðar strengjabrúður og bíða leyfis stjórnar til að segja svart eða hvítt. Sennilega verða þau einnig látin vinna drengskaparheit samkvæmt lið 11.2.1 sem hreinlega stangast á við stjórnarskrá.
Er þetta það sem við viljum sjá til handa þessum einstaklingum sem hafa staðið sig eins og hetjur? Hvar eru raddir þeirra sem telja þau hafa unnið góð störf á þinginu? Hvernig væri að sá hópur færi að stíga fram. Því þessi ágæti þinghópur þarf bakland líkt og aðrir þinghópar. Bakland sem styður við bakið á þeim.
Ég trúi á þau!
Þór, Margrét og Birgitta - þið hafið barist eins og hetjur. Ekki hætta því!
Harma deilur í Borgarahreyfingunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Veistu að ég held að þú segir þarna sannleikann. Ég tek undir áskorun þína til Birgittu, Þórs og Margrétar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.9.2009 kl. 12:54
Takk Ásthildur - já ég segi sannleikann. Ég horfði á þetta allt með eigin augum. Ég vona að sem flestir komi hér inn og taki undir. Ég bið fólk vinsamlegast að leggja sitt af mörkum. Ég vil ekki sjá þingmennina okkar bugast vegna eigin félagsmanna.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 13:30
Hér er grein 11.2.1. sem vísað er til í texta.
11.1.2. Frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar skulu skrifa undir eftirfarandi heit:
Ég (fullt nafn frambjóðanda) heiti því að vinna eftir bestu getu að stefnu hreyfingarinnar eins og hún er samþykkt á landsfundi. Gangi sannfæring mín gegn meginstefnu hreyfingarinnar mun ég leitast eftir því að gera félagsfundi grein fyrir því og leggja í dóm félagsfundar hvort ég skuli víkja sæti við afgreiðslu þess máls
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 13:34
http://asthildurcesil.blog.is/blog/asthildurcesil/ Setti hér inn smápistil. 'Eg tek undir með þér þá ósk að þau standi þennan þrýsting, því hér er meira í húfi en framapot og áhrif.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.9.2009 kl. 13:36
Frábært Ásthildur, takk fyrir þetta
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 13:38
Hér er svo önnur grein sem hindrar upplýsta ákvarðanatöku þingmanna. Stundum er ekki tími til að rökræða hluti og láta miðstýra þeim!
6.1.3. Ef stjórn telur að þingmenn eða aðrir meðlimir
hreyfingarinnar gangi gegn stefnu hreyfingarinnar, skal stjórnin sannanlega
boða til félagsfundar með fjögurra vikna fyrirvara og reyna eins og hægt er
að viðkomandi félagsmaður geti sótt fundinn til að útskýra afstöðu sína. Eftir
að viðkomandi félagsmaður hefur útskýrt sitt mál getur hver félagsmaður
lagt málið í dóm fundarins sem skal taka til þess afstöðu sbr. grein 8.1.4.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 13:48
Sáttaleiðin var reynd í sumar - en stjórn og virkir félagsmenn voru ekki tilbúnir ti sátta. Þessvegna er þessi grein vel til þess fallin að gera nú út um málin.
8.1.4. Félagsfundir skulu leysa úr ágreiningsmálum innan hreyfingarinnar og
reyna í hvívetna að leita sátta. Félagsfundir hafa vald til að skipa til þess
sáttanefnd. Sýnist félagsfundi sáttaleiðin ófær hefur hann vald til að áminna
félagsmenn, lýsa á þá vantrausti. Tillögur um áminningu, vantraust og brottvikningu skulu vera skriflegar, útskýra ástæður og undir hana skulu skrifa þeir sem eru með og þeir sem eru á móti. Stjórnin skal framfylgja ákvörðun fundarins.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 13:50
Tek undir með frúnni.
sandkassi (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 14:02
Ég ætla að setja hérna inn úttekt á landsfundinum eins og hann kom Guðbirni Jónssyni fyrir sjónir. Þetta er holl lesning;
Eins og margir aðrir, hef ég fylgst með átökunum í Borgarahreyfingunni og undrast þá hörku sem greina hefur mátt í skrifum tiltekins hóps félagsmanna. Þar sem ég bjóst ekki við að fá raunhæfar fréttir frá fjölmiðlum, um gang mála á landsfundinum, skráði ég mig sem félagsmann í ágúst s. l. til að eiga rétt til setu á fundinum.
Strax við komu á fundinn, var ljóst að þarna var mætt herská fylking sem ekki var í sáttahug. Friðrik Þór Guðmundsson tók að sér að vera fundarstjóri, og að mínu mati leysti hann það hlutverk afar vel af hendi, við þær erfiðu aðstæður sem þarna voru. Tókst honum - að mestu - að koma í veg fyrir persónuárásir, þó einstöku ræðumenn létu sér ekki segjast fyrr en hann URRAÐI á þá.
Í "skýrslu stjórnar" tókst fráfarandi formanni vel að sneiða hjá öllum hasarnum sem verið hafði en lagði þeim mun meiri áherslu á þann samstöðukraft sem myndast hafði í kosningabaráttunni. Greinilegt var að hann var beinlínis að auglýsa eftir þessum samstöðukrafti, til þeirra verka sem nú biðu hreyfingarinnar.
Á sama hátt fluttu allir þrír þingmennirnir gott yfirlit yfir það mikla umrót sem varð á lífi þeirra á þessu ári og þá miklu áskorun sem það var að læra að fóta sig í þessu nýja starfsumhverfi sem þingið er, sem og þeim miklu átökum sem urðu í þjóðmálunum á sama tíma.
Byrjunin var því góð, en það var líka bara byrjunin. Fljótlega kom í ræðustól fólk sem var fyrst og fremst í árásarham, ýmist á einstakar persónur eða þann hóp sem vildi halda grasrótarstarfinu áfram. Þetta var einkar athyglisverð upplifun, sem lítið fékk þó útrás í ræðustól, vegna frábærrar festu og jafnvel harðrar framgöngu fundarstjórnans.
Í upphafi fundarins vakti athgyli mín hve mikill óróleiki var meðal hinnar herskáu fylkingar. Mikið ráp, ráðabrugg og símahringingar. Fljótlega fór svo að fjölga á fundinum og voru jafnvel komnir á fundinn aðilar sem ekki höfðu verið skráðir félagsmenn. Fundurinn varð þó samhljóða um að leyfa þeim að taka þátt í kosningum.
Þegar tillögurnar að lögum hreyfingarinnar eru skoðaðar, er helsti munur þeirra sá að tillögur hópsins sem þingmennirnir styðja gera ráð fyrir frjálsu hópastarfi, sem finni leiðir til jákvæðra breytinga á framkvæmd lýðræðis hjá þjóðinni, en byggi á lítilli valdstjórn. Tillögur herskáa hópsins byggir hins vegar á viðamikilli valdstjórn, þar sem ýmis fyrirmæli eru um hlýðni og einnig óútskýrðar heimildir til refsinga og brottreksturs.
Lagabálkur þessi er mikill, samtals 10 og hálf blaðsíða. Hins vegar er samhæfing engin, og því valdheimildir virðast liggja víða, en engin leið að vita hver á að fara með valdið á hverjum stað.
Í sjötta kafla laganna, um vinnuhópa og málefnasvið, segir að á aðalfundi skuli kosinn umsjónamaður hvers málefnahóps, og annar til vara, en í dagskrá aðalfundar er ekkert minnst á þessa kosningu.
Í fimmta kaflanum, um félagsfundi, eru mörg afgerandi valds-hugtök, sem gera stjórnina eiginlega óþarfa. Þar segir að félagsfundir skuli leysa úr ágreiningsmálum, sem í sjálfu sér er gott mál. Hins vegar er bætt við að félagsfundur hafi vald til að skipa sáttanefnd. Sýnist félagsfundi sáttaleið ófær, hefur félagsfundur heimild til að áminna félagsmenn, lýsa á þá vantrausti og víkja þeim úr hreyfingunni.
Þá segir einnig í fimmta kafla. Til að ákvarðanir félagsfundar séu lögmætar skulu að lágmarki fimmtán meðlimir sitja fundinn. Á öðrum stað í fimmta kafla segir að: Félagsfundir geti boðað einstaka félagsmenn á sinn fund. Skulu þingmenn, varaþingmenn, stjórnarmeðlimir, varastjórnarmeðlimir, umboðsmenn málefnahópa, tengiliðir vinnuhópa og aðrir sem gegna trúnaðarstöðu innan hreyfingarinnar hlíta boðinu ef þeir hafa tök á.
Þarna er í lögunum tilgreindar miklar heimildir til handa félagsfundi. Gallinn er hins vegar sá, að aðalfundur, sem er æðsta vald hreyfingarinnar og kýs þá aðila sem fara með vald hans milli aðalfunda, veitir félagsfundi ekki þetta vald. Hann hefur aldrei úthlutað þessu valdi til félagsfunda, því á aðalfundi er einungis kosin stjórn og varastjórn. Engir umboðsmenn málefnahópa eða tengiliðir vinnuhópa, eru kosnir á aðalfundi. Þess vegna er fullkomlega óljóst hvert þessir aðilar sækja vald sitt.
Og enn segir í fimmta kaflanum, um félagsfundi: Tillögur um áminningu, vantraust og brottvikningu skulu vera skriflegar,útskýra ástæður og undir hana skulu skrifa þeir sem eru með og þeir sem eru á móti. Stjórnin skal framfylgja ákvörðun fundarins.
Þarna er óhætt að segja að herskái hópurinn sé kominn eins langt frá grasrótarhugsun, lýðræði og mannréttindum og hægt er með góu móti að komast. Í lögunum er ekkert ákvæði um það hver skuli boða féalgsfundi, né hvernig slíkir fundir skuli boðaðir. Í lögunum segir að lágmarki fimmtán meðlimir sitja fundinn til að ákvarðanir félagsfundar séu lögmætar.
Svo virðist sem hvaða félagsmaður sem er geti boðað félagsfund, með hvaða hætti sem honum sýnist og tekið fyrir þau mál sem honum sýnist. gefum okkur nú að einhverjum væri illa við einhvern félagsmann eða sjórnarmann. Hann gæti safnað í kringum sig 15 félagsmönnum sem tilbúnir væru til að styðja tillögu hans um brottrekstur. Hann boðar því félagsfund; boðar einungis þá sem hann veit að eru honum sammála. Fundurinn ákveður svo samhljóða (með 16 atkvæðum) að reka hinn tilgreinda einstakling úr hreyfingunni og: Stjórnin skal framfylgja ákvörðun fundarins.
Nú er það náttúrlega svo, að í öllum lagabálknum eru engin ákvæði eða heimildir til refsinga fyrir að hlíta ekki lögunum. Spurningin er því hvert félagsundir, sem ákvæðu áminningar eða brottvikningar sækja heimildir sínar, þar sem engin ákvæði laga þeirra kveða á um slíkt?
Ég ætla að sleppa öllum kjánaskapnum um að félagsfundur nánast ráði yfir þingmönnum hreyfingarinnar og fyrirhuguðum eyðstaf frambjóðenda. Við yfirlestur mat ég u.þ.b. helminginn af lagatextanum ónothæfan en annað mætti nota með því að skýra betur, í texta lananna, þá hugsun sem að baki lægi.
Ég tek það skýrt fram að með þessum skrifum mínum er ég ekki að telja herskáa hópinn einhvert vont fólk. Síður en svo. Ég hef frekar þá tilfinningu að þarna sé á ferðinni ákveðinn vanþroski í hóphugsun og hópvinnu, sem framkalli það séríslenska tilfelli þar sem hver og einn er svo handviss um að hann sé með einu réttu lausnina, og hinir eigi að hlýða honum; annars séu þeir á móti honum.
Með svona litla reynslu í þjóðfélagslegri hugsun og hópvinnu, tel ég afar litlar líkur á að þessi hópur verði lýðræði og persónukjöri til framdráttar. Vel má vera að mér skjátlist. Vonandi verður það þá þjóðfélaginu til góðs, því við megum vart við meira af hinu í bili.
sandkassi (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 14:08
http://gudbjornj.blog.is/blog/bubbi/entry/947634/#comments
Það var gott að koma með þetta inn. Taka má fram að Guðbjörn er gamall í hempunni og hefur komið að mótun regluverks flestra stjórnmálaflokka en eins og hann sagði sjálfur (man ekki alveg hvernig hann orðaði það á landsfundinum) bakkað frá þegar fyrirséð var að alger miðstýring yrði fyrir valinu.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 14:12
Þetta eru athugasemdir Guðbjarnar við upprunalegu A tillögurnar.
Nú sér sá sem vill hvað vakti fyrir þeim sem lögðu þessar tillögur fram eftir margra mánaða vinnu. Það er ekki eins og að þetta hafi verið unnið í flýti hjá þeim.
sandkassi (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 14:18
Hér virðist vera annar einstaklingur sem hefur upplifað það nákvæmlega sama og ég á Landsfundinum.
http://skorrdal.blog.is/blog/skorrdalsblogg_i/entry/948063/#comment2601291
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 14:56
Ég er alveg sammála þessari ágætu færslu.
Hitt er annað að þessar deilur eru slítandi og óuppbyggilegar. Ég myndi vel skilja þingmennina ef þeir hættu hreinlega að taka þátt í þeim og snéru sér alfarið að því að vinna í þágu umbjóðenda sinna, þjóðarinnar.
Þetta lítur út fyrir að vera sandkassaleikur og fullorðið fólk nennir ekki að taka þátt í því.
Sigurður Þórðarson, 14.9.2009 kl. 15:05
Sæll Sigurður.
Það er einmitt það sem ég vona innilega að þau geri. Fái loksins vinnufrið til að vinna í þágu umbjóðenda sinna, þeirra tæplega 14000 sem kusu þau. Á móti þeim 54 sem kusu um lög til að miðstýra þeim!
Takk kærlega fyrir innlitið - gott að heyra í stuðningsmönnum:)
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 15:10
Ég ætla að biðja þá sem vilja eiga sérstakt tal af Gunnari að rekja mál sitt á hans bloggsíðu, ekki minni. Ég tek mér því það litla vald sem ég hef, þ.e. ritskoðun á eigin bloggsíðu að fela þær athugasemdir sem ætlaðar eru honum.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 16:07
Takk fyrir þessar hugleiðingar Lísa og takk Gunnar, fyrir að endurbirta pistilinn minn.
Ég veit ekki hvort hægt er að hugsa sér óraunhæfara tilefni til ágreinings en það sem olli öllu uppnáminum hjá Hreyfingunni. Órökræni hluti Hreyfingarinnar heldur því fram, þrátt fyrir að þess sé hvergi getið í gögnum hennar, að hreyfingin styðji umsókn um aðild að ESB.
Þrír af þingmönnum Hreyfingarinnar, gerðu tilraun til að pressa Alþingi til að afgreiða ekki IceSave samningana með flýti í gegnum þingið, með því að tengja atkvæði sitt, um aðilar umsókn að ESB, við frestun IceSave.
Hvað varðar umsóknina um aðild að ESB, þá var hún samþykkt, þrátt fyrir að þrír af þingmönnum Hreyfingarinnar greiddu atkvæði gegn henni. Afgreiðslan fór því á þann veg sem órökrænihópurinn sagði að væri samkv. stefnu Hreyfingarinnar. Hvort það hefði dugað til að halda andlegu jafnvægi órökræna hópsins að umsóknin hefði verið samþykkt með þremur fleiri atkvæðum en raunin var, verður sennilega aldrei ljóst.
Viðspyrna þremenninganna gegn IceSave, varð hins vegar til þess að mikið af upplýsingum, sem ekki átti að leggja fyrir Alþingi, var dregið fram. Varð það m.a. grundvöllurinn að afar vandaðri samantekt fyrirvara við þann samning, sem líklega munu koma til með að spara börnum okkar og barnabörnum marga milljarða í skuldagreiðslum.
Eins og hér hefur verið sýnt fram á, var aldrei til raunveruleg ástæða til ágreinings gegn þessum þremur þingmönnum, því þeir felldu ekki umsókn um aðild að ESB, sem óraunsæi hópurinn lítur á sem sérstakt trúaratriði hreyfingarinnar. Þó það hafi ekki verið í útgefinni stefnu Hreyfingarinnar. Eina sem þessir þingmenn hafa áunnið sér til ófriðhelgis, að mati óraunsæa hópsins, er að pressa fram mikið vandaðari vinnu við IceSave samningana en ætlunin var. Hvort það getur talist til syndar fyrir þingmenn, að spara ríkissjóði framtíðarútgjöld um einhverja tugi milljarða, telst vart til lasts hjá flestum þegnum þessa þjóðfélags, þó slík framganga ávinni þeim algjöra ófriðhelgi að mati lítils óraunveruleikahóps innan Hreyfingarinnar. Hóps sem hagar sér eins og óþekkur krakki, sem hefur verið neitað um sælgæti.
Ég lít svo á að þjóðin hafi ekki efni á að missa þessi þrjú af þingi, því fáir þingmenn hafa afkastað annað eins á stuttum tíma, samhliða því að læra vinnu- og framkomureglur, undir stöðugum árásum óvitahóps úr röðum þeirra sem áttu að vera stuðningsmenn þeirra.
Guðbjörn Jónsson, 14.9.2009 kl. 16:31
Algjörlega sammála Guðbirni hér.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.9.2009 kl. 16:50
Frábær athugasemd Guðbjörn. Ég er svo innilega sammála!
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 17:26
Ég var að rekast á þessa grein - man ekki eftir að hafa tekið eftir henni áður.
12.4. Þinghópur skal markvisst nýta sér varaþingmenn hreyfingarinnar til undirbúnings frumvarpa, tengsla við málefnahópa og eftir föngum að taka sæti á Alþingi
Ég skil ekki alveg þessa lagagrein. Markvisst nýta sér..... og eftir föngum að taka sæti á Alþingi. Ég hélt að eðlileg og viðtekin venja væri að þingmaður boðaði varaþingmann ef hann ekki með nokkru móti gæti sinnt setu á þingi sjálfur. Þetta er í raun eins og verið sé að hvetja þingmann hreyfingarinnar til að taka sér frí og velta starfinu yfir á varaþingmann!
Er einhver hliðstæða fyrir þessu?
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 18:25
"12.4. Þinghópur skal markvisst nýta sér varaþingmenn hreyfingarinnar til undirbúnings frumvarpa, tengsla við málefnahópa og eftir föngum að taka sæti á Alþingi"
Tær snilld þessi grein. Ef maður les bókstaflega í hana þá þýður hún að þingmenn ættu eftir föngum að taka sæti á Alþingi. Ef meiningin er að varamenn ættu eftir föngum að taka sæti á Alþingi þá stangast það líklega á við lög um þingsköp Alþingis.
Þessum snillingum sem lágu í allt sumar yfir þessum lagabreytingum er líklega alveg sama um það.
Jóhann Ágúst Hansen, 14.9.2009 kl. 18:51
Já - og settu svo fram ótal breytingartillögur við eigin lög!
Og nú vill varaþingmaður og stjórnarmeðlimur Lilja Skaftadóttir, samkvæmt nýjasta bloggi sínu, hafa lög sem koma í veg fyrir að þingmenn geti yfirgefið flokk/hreyfingu og tekið þingsætin sín með sér.
Er það lýðræðislegt?
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 19:01
Eða svo ég setji inn hennar eigin orð:
"Ég tel að þau lög, sem gefa þingmönnum færi á því að yfirgefa hreyfingar og flokka og taka með sér sætin sín, séu einfaldlega ekki nógu vel úthugsuð. Þetta er matsatriði og sennilega er kominn tími til þess að ræða þetta til hlítar eins og svo margt annað."
Skildi vera sérstök ástæða fyrir því að hún setur þetta fram núna?
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 19:04
Ástæðan er auðvitað að þau sjá í hvaða óefni þau eru komin.
Annars verð ég að leiðrétta þig. Lilja er ekki varaþingmaður því Gunnar "litli lúður" Sigurðsson komst ekki á þing.
Jóhann Ágúst Hansen, 14.9.2009 kl. 20:05
Já auðvitað er það rétt hjá þér Jóhann, ég er að fara með rangt mál þarna í varaþingmannatalinu mínu:)
En kapp er best með forsjá. Þau átta sig kannski á því núna að það fæst ekki allt með lýðræðinu einu saman.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 20:59
Sammála og ekki síður Guðbirni hér ofan.
Akkúrat eins og ég sá ESB slaginn. Og ástæða þess að hve stoltur ég er af vinnu þingmanna okkar, fyrir einmitt að hafa sett hagsmuni þjóðarinnar og sannfæringu sína ofar einhverjum munnlegum loforðum, sem áttu sannarlega heima neðst á þeim mikilvæga lista sem Ríkisstjórnin brást þjóðinni mest í. það er að forgangsraða á tímum neiðarlaga. Þegar sjálfstæði þjóðarinnar hangir á bláþræði.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 22:56
Heyr heyr Arnór!
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.9.2009 kl. 23:04
Auðvitað kvitta ég undir þetta! Enda eru Birgitta, Margrét og Þór þau sem hafa sýnt það og sannað, þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður, að þau berjast fyrir þann málstað sem ég stóð upp fyrir sl. haust.
Ég gekk til liðs við Borgarahreyfinguna á sínum tíma vegna þess að ég sá ekki aðra leið þegar mótmælin lognuðust út af en þá að við mótmælendur kæmum hreinlyndum eldhugum inn á þing til að vinna málstað okkar brautargengi inni á þingi.
Ég hef hlustað á ræður þeirra, bloggum og því sem haft hefur verið eftir þeim í fjölmiðlum. Á því öllu er greinilegt að þau eru svo sannarlega að vinna að því sem ég heyrði hvað eftir annað endurtekið aftur og aftur bæði á mótmælum og borgarafundum. Það er líka ljóst af fréttum innan af þinginu og innan úr nefndunum, sem þau sitja í, að þau hafa áhrif! Áhrif til góðs. Áhrif sem skila árangri. Áhrif sem lofa svo sannarlega góðu.
Í þessu samhengi má heldur ekki gleymast þvi að þau eru bara rétt að byrja!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.9.2009 kl. 00:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.