Þetta verða þeir að útfæra MUN betur......

Eftirfarandi er fengið að láni af visi.is

"Greiðslubyrði lána verður færð aftur fyrir hrun og það sem eftir stendur af lánum að lánstíma loknum verður afskrifað, samkvæmt aðgerðum sem ríkisstjórnin kynnir á allra næstu dögum.

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra boðaði á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag að ríkisstjórnin myndi á næstu dögum kynna aðgerðir sínar til stuðnings skuldugum heimilum. Hann vildi hins vegar ekki fara nákvæmlega ofan í þessar aðgerðir fyrr en endanlega hefði verið gengið frá þeim.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar verður greiðslubyrði allra húsnæðis - og bílalána, hvort sem þau eru verðtryggð eða gengistryggð færð að því sem hún var tiltekinn dag áður en bankarnir og gengi krónunnar hrundu. Það sem eftir standi að lánstíma liðnum verði síðan afskrifað.

Ráðherra sagði tillögurnar taka mið af hagsmunum fólks og fjölskyldna en ekki hagsmuni fjármálastofnana og kröfueigenda."

Nú spyr ég:

1. Nú hafa margir einstaklingar skuldbreytt lánum vegna ítrekaðra hótana um eignanám. Það mætti telja til nauðungasamninga ef út í það er farið. Þessum lánum þarf þá að "snúa tilbaka" svo þau falli undir "sömu greiðslubyrgði" líkt og upphaflega lánið.

2.  Margir hafa á þessum tíma selt eignir - í neyð aftur - hvort sem um ræðir hús eða bíla. Viðkomandi situr þá jafnvel eftir með ný lán sem í raun eru bara verðtrygging og/eða gengistrygging og engin eign þar að baki. Hvað á að gera fyrir þetta fólk? Fólk sem er að borga af t.d. bíl sem það seldi á matsvirði en skuldaði þó verðtryggingu/gengismun? Og er að greiða það?

3. Nú á að afskrifa eftirstöðvar í lok lánatímabils. Af hvaða höfuðstól verður reiknað þessi ár sem eftir eru? Er verðtrygging/gjaldeyrismismunur sett á hold í þessi ár?

4. Nú verður höfuðstóll leiðréttur (vonandi - eina rétta leiðin til að reikna lánin áfram) en eftirstöðvarnar, sem eru þá verðtryggingin og gengismunurinn, hanga aftan í láninu. Hvað ef fólk þarf nú að stækka við sig eða vill kaupa minna? Hvað á það að gera við "kreppuhalann".

5. Í anda 4. liðar - hvað ef ung hjón sem voru sátt og sæl 2007 en eru það ekki lengur, taka uppá því að skilja skiptum og skipta eignum og skuldum. Hvað verður þá um "kreppuhalann"?

6. Hvað með þá sem eru með 40 ára lán en falla frá innan 40 ára?

Þetta er sumsé góð byrjun en alls ekki nógu góð útfærsla. Afhverju ekki að klára dæmið strax? Því eftir sem áður má fólk hvorki skipta um húsnæði eða bíl. Hvað þá að skilja og alls ekki að deyja á lánatímabilinu.

Ég mæli því með að fá að sjá betri útfærslu á þessu - helst í gær!


mbl.is Greiðslubyrði aftur fyrir hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það á ekki að lækka höfðustól lánanna, bara afborganirnar.  Það er allavega minn skilningur... 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.9.2009 kl. 23:05

2 identicon

Hjartanlega sammála þér, það er ekki nóg að minnka greiðslubyrði lána og bíða með afskriftir af lánum þar til að lánstíma loknum. Þá er ennþá verið að halda fólki í skuldafjötrum og einnig verður erfitt að koma húsnæðismarkaðinum af stað aftur. Það þarf að afskrifa aukaskuldir sem hafa bæst við höfuðstól lána og leiðrétta NÚNA það óréttlæti sem lántakendur hafa orðið fyrir í kjölfar bankahrunsins og ekki bíða með það þar að lánstíma loknum sem gæti orðið 40 ár, fáránleg hugmynd hjá ríkisstjórninni.

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 23:42

3 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Lísa - ég held að þessi aðgerð þurfi að vera eins einföld og hægt er. Með því að fara eftir tillögum HH um leiðréttingu er hægt að framkvæma aðgerðina í tölvukerfi bankana og ils. Færa gengistryggðu lánin yfir í íslensk lán og setja síðan 4% þak á verðtryggingu. Þar með er kominn lausn á magnið. Síðan er hægt að ráðast í "jaðarhópana" sem eru áfram í vandræðum.

Axel Pétur Axelsson, 27.9.2009 kl. 00:05

4 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Axel - ég er alveg sammála þeirri lausn sem HH boðar. En þessi lausn ríkisstjórnar er ekkert í samræmi við það. Ég er ekki að sjá hvernig þeir ætla að laga höfuðstól lánanna. Þeir tala bara um greiðslubyrgði. Og niðurfellingu í lok lánatímabils. Þetta er svo illa útfært að í raun er ekki hægt að skilja hvernig lánin koma svo til með að þróast og út frá hverju þau þróast.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 27.9.2009 kl. 01:14

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Góðar spurningar hjá þér.

Marinó G. Njálsson, 27.9.2009 kl. 01:33

6 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Lísa. Það er ekki búið að kára samninga milli stjórnvalda og fjármálastofnanna og þar með er ekki búið að útfæra þetta í smáatriðum. Meðan þessar samningaviðræður standa enn yfir er ekki verið að upplýsa almenning um útfærslurnar að fullu og því er eðlilegt að enn sé mörgum spurningum ósvarað. Það er því fullsnemmt að tala um að um sé að ræða illa útfærðar leiðir meðan ekki er búið að upplýsa hvernig þær eru útfærðar.

Edda Karlsdóttir. Finnst þér eðlilegt að afskrifa hluta lána vegna tímabundinnar rýrnunar eigin fjár í húsnæði í miðri kreppu? Er ekki eðliegra að sjá fyrst til hvort þessi eignarrýrnun gangi til baka eða ekki áður en farið er út í afskriftir lána með gífurlegum kostnaði fyrir skattgreiðendur? Ef svo fer, sem flestir vona og líklegt er, að við náum okkur út úr kreppunni og kaupmáttur launa eykst aftir ásamt því að húsnæðísverð hækki aftur. telur þú þá eðlilegt að lánveitandi taki á sig tapið af tímabundinni raunlækkun húsnæðisverðs, en lántakinn/íbúðaeigandinn fái það síðan í hagnaðinn þegar þessi raunlækkun húsnæðisverðs gengur til baka?

Sigurður M Grétarsson, 27.9.2009 kl. 07:21

7 identicon

Sigurður, þetta er í lagi fyrir þá sem ætla að vera í húsnæði sínu næstu mörgu ár en þeir húsnæðiseigendur sem vilja selja sína eign núna verða fyrir mjög miklu tapi svo ég get ómögulega séð neitt réttlæti í því að bíða með niðurfellingu af höfuðstól lána. Þurfa bankarnir ekki að bera smá ábyrgð á þessum ósköpum sem hafa dunið yfir lántakendur eða á saklaust fólk að taka á sig allan skaðann?

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 08:52

8 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það er reyndar rétt hjá þér að þeir, sem ætla að selja sína íbúð og ekki að kaupa aðra í staðinn og þeir, sem geta ekki flutt lánið með sér yfir á nýju íbúðina munu missa af afskriftinni. Það réttlætir hins vegar ekki að lækka höfuðtól í miðri kreppu og láta svo lánveitgandann hirða hagnaðinn þegar og ef "eiganarbruninn" í kreppunni gengur til baka.

Það er ákaflega ólíklegt að til nokkurra afskrifta komi á lánum, sem eiga langan líftíma eftir því kaupmáttur hefur alla tíð haft tilhneygingu til að aukast til lengri tíma litið og því mun biðlánið væntanlega greiðast upp að fullu á þeim lánum. Það er því ólíklegt að fólk með lán, sem á eftir að greiða af í langan tíma missi af einhverri afskrift þó þau lán verði greidd upp. Það eru fyrst og fremst lán með stuttan líftíma eftir þar, sem einhverjar afskriftir munu eiga sér stað.

Það að selja hús nú meðan verð er í botni í miðri kreppu án þess að kaupa annað í staðinn mun leiða til eignartaps og því ekki ráðlegt fyrir neinn að gera það ef hann kemst hjá því.

Sigurður M Grétarsson, 27.9.2009 kl. 15:17

9 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Sigurður - nú virðist sem þú þekkir til þessara samninga. Getur þú þá frætt mig um t.d. hvernig afborganir verði reiknaðar í framtíðinni? Miðað við hvaða höfuðstól?

bk,

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 27.9.2009 kl. 15:32

10 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Hárréttar ábendingar.

Það verður augljóslega óþægilegt, að hafa milljóna tugi hangandi yfir sér, jafnvel þó greiðslubyrði hafi verið niðurfærð. Þá er augljóst að stór hluti lánsins verður felldur niður í rest, en sum lán eru ansi löng, svo biðin eftir þeirri niðurfellingu gæti orðið ansi löng.

Hugmyndin virðist í grófum dráttum vera sú, að losna við það að bókfæra tapið af afskriftunum, nærri því strax. Smá svona "smoke and mirrors" dæmi, þ.s. bankarnir þykjast hafa mun meira eigin fé en þeir í reynd hafa.

Þ.s. afskriftirnar fara ekki formlega fram, þá eru lánin enn eignfærð á fullu verði, og bankarnir - abadra kabadra - geta haldið áfram að standast formlega reglur um lágmarks eigin fé.

Auðvitað mun markaðurinn sjá í gegnum svoleiðis lagað, þannið að afleiðingin mun koma fram í mjög lágu markaðsverðmæti þeirra - væntanlega -, en einnig í áframhaldandi tregðu þeirra til að lána.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 27.9.2009 kl. 16:31

11 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

"Það réttlætir hins vegar ekki að lækka höfuðtól í miðri kreppu og láta svo lánveitgandann hirða hagnaðinn þegar og ef "eiganarbruninn" í kreppunni gengur til baka."

Af hverju ætti það að ganga til baka?

Ég get einnig spurt, þó þú hafur ekki rætt um krónuna, þá get ég einnig varpað fram þeirri spurningu, af hverju ætti hún að hækka?

Ég bendi á eigin færslu: http://einarbb.blog.is/blog/einarbb/entry/952255/

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 27.9.2009 kl. 16:35

12 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Athugaður, húsnæðisverð voru verðbólu-verð. Það þíðir, að þau ganga sennilega aldrei til baka.

Sama um krónuna, hún var einnig í bólu.

Almennt séð, hefur krónan ekki hækkað aftur, þegar litið er á hagsöguna, heldur hefur myndast nýtt jafnvægi - þá lægra jafnvægisverð em áður.

Hún hefur því í reynd, aldrei haft neitt "langtíma-jafnvægis-verð".

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 27.9.2009 kl. 16:40

13 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Ég mundi halda að það væri þá hugmyndalega réttara að skipta láninu í tvennt. Upprunalega lánið miðað við stöðu 2008 og síðan þær álögur sem komu á það vegna kreppunnar og öllu því sem henni fylgdi. Upprunalega lánið fer síðan eftir upprunalegum forsendum og afborganir og höfuðstóll í samræmi við það. Hinn helmingurinn af láninu er þá afborganalaus og gefur stjórnvöldum tíma til að útfæra þessi mál betur, t.d. með árlegum afskriftum á móti þeim sveiflum sem verða á gengi.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 27.9.2009 kl. 18:53

14 identicon

Með þessum aðgerðum er eins og verið sé að halda óþægum krökkum góðum núna rétt fyrir greiðsluverkfall. Betur má ef duga skal, þessar aðgerðir eru sýndarmennska ein, fólk situr ennþá eftir með skuldahala sem hefur lagst að ósekju ofan á þau lán sem voru tekin í góðri trú um að allt væri í stakasta lagi á þessu blessuðu landi okkar. Fyrir þá sem hafa ekki áhuga á að sitja næstu áratugina í sama húsnæði eru þessar aðgerðir ekki nægar, það verður að fella niður þær skuldir sem hafa bæst við höfuðstól lána í kjölfar bankahrunsins.

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 19:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband