Minning til föður míns

pabbiElsku pabbi minn.

Ófáar gleðistundir höfum við átt saman og börnin mín dýrkuðu þig og dáðu, enda enginn venjulegur afi. Ég var ekki há í loftinu þegar þú kenndir mér manngangin í skák, glímu og Hornafjarðarmanna. Margar voru ferðirnar í Munaðarnes þar sem ekki var hægt að spila Lúdó nema afi væri með. Því þú varst alltaf svo kíminn og þóttist vera agalega tapsár á þann hátt að börnin skellihlógu. Og afi var dreginn út í minigolf, útá róló eða hvert sem helst.

Þú stóðst við hlið mér þegar ég skírði frumburðinn minn hann Barða sem var þér svo ákaflega kær. Þú hefur samglaðst mér á mínum gleðistundum, hughreyst mig á erfiðum stundum og stappað í mig stálinu þegar ég hef þurft á að halda. Og alltaf hafðir þú óbilandi trú á mér.

Þú hefur leitt mig inn kirkjugólf - hönd í hönd. Í dag, elsku pabbi minn, var komið að mér að bera þig út kirkjugólfið í fallegri blómumskrýddri kistu ástamt systrum mínum og frænku. Þú vildir hafa hljótt um þessa stund. Engu að síður flugu ástvinir þínir frá ýmsum löndum hingað heim til að kveðja þig - þig sem varst öllum svo kær sem þig þekktu.

Elsku pabbi. Ég veit að núna líður þér vel. Þú ert búinn að berjast við erfiðan sjúkdóm sem dróg úr þér allan mátt og allan þann mikla styrk sem þú hafðir. Líkaminn var orðinn þér fjötur um fót. En þó svo hann sé horfinn okkur þá munt þú vera með okkur alltaf.

I love you.

Lísa


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég samhryggist þér og fjölskyldunni þinni, ég missti pabba minn þann 04.03.2010 eða fyrir rúmum mánuði síðan.  Ég skil þig mjög vel. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.4.2010 kl. 00:51

2 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Takk Jóna mín. Þetta er búið að vera langt og erfitt ferli.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 15.4.2010 kl. 02:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband