13.6.2010 | 10:11
Hreyfingin er fyrir fólkið í landinu!
Meðan ríkisstjórnin hefur skotið skollaeyrum við vandræðum heimilana þá er gott til þess að vita að almenningur á "sitt fólk" á Alþingi. Það eru einstaklingar þarna inni sem berjast fyrir fólkið og lýðræði í landinu. Vonleysi fólks á þessu sviði hefur verið að aukast þegar æ ljósara virðist að Skjaldborg Jóhönnu var lítið annað en Skjaldborg fyrir lánadrottna og bankastofnanir í samvinnu með AGS. Tjaldborg heimilanna var reist við Austurvöll sl. föstudag til að minna á að enn væru óleyst mál heimilanna og mörg þeirra að sökkva æ dýpra í skuldafen. Skuldafen sem á ekki rætur að rekja til óráðsíu fólksins í landinu heldur bankamanna og sjóndepurð stjórnvalda. Tjaldborgin hrópaði eftir Alþingi fyrir fólkið í landinu og að stjórnina þyrfti annaðhvort að vekja eða hrekja.
Það kom lítið á óvart að þingmenn Hreyfingarinnar ásamt Lilju Mósesdóttur komu í heimsókn í Tjaldborgina og var þeim vel tekið. Reyndar kíkti Ögmundur við líka, en aðrir þingmenn létu lítið fyrir sér fara.
Það sorglega er að þetta er of lágt hlutfall þingmanna. Við þurfum fleiri þingmenn fólksins á þing.
En fólkið í landinu hefur risið upp áður og sameinast um að fá sínu fram svo vitnað sé í búsáhaldabyltinguna. Fólkið í landinu getur risið upp að nýju og látið til sín heyra. Því það vill svo til að sameinuð getum við gert svo margt.
Ég vil hvetja fólkið í landinu - þjóðina - að rísa upp og krefjast þess að almenningur og þarfir hans verði settur í forgang hjá Alþingi okkar Íslendinga.
Einlægur vilji þingmanna að klára mál heimilanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.