22.8.2008 | 19:55
Það er fullt af mikilvægu fólki í kirkjugörðunum......
Þetta sumar er búið að vera strembið. Það voru fjölskyldumálefni sem þurfti að takast á við, vinnan, litla barnið og margt fleira. Ég hef ekki tekið mér neitt eiginlegt sumarfrí - bara þurft að taka smá frí til að jafna mig aðeins eftir mikið álag. Síðan tók við leikskólaaðlögun, en þá var hægt að vinna á kvöldin og um helgar. En það var greinilegt að líkaminn var búinn að fá alveg nóg af þessu öllu þannig að við tók flensa sem varð fljótlega sýking í lungum. Skjálfandi af hita sat ég við tölvuna og reyndi að skila af mér verkefni. Það hafðist, en síðan versnaði flensan og önnur verkefni þurftu einfaldlega að sitja áfram óunnin á eldhúsborðinu. Heilsan var orðin ansi slæm. Maður sofnaði með litlunni og mókti og svaf til skiptis eða vaknaði við það að vera að hósta upp lungum og lifur. Og af hverju hafði maður áhyggjur? Jú - það voru verkefni sem biðu mín, skólarnir að byrja og ég alger liðleskja í þessu öllu saman. Eitt væri búið að taka við af öðru og ég var í þann vegin að hleypa mér í eitthvað vonleysi. Ég hringdi í vinkonu mína til að væla smá. Þriðji dagur á pensilini og ennþá gjörsamlega úr leik - svo var hóstað, svitnað, vælt aðeins meira. Hún leyfði mér að pústa en sagði svo við mig. Heyrðu Lísa - nú þarft þú bara að hugsa um að jafna þig og komast til heilsu. Það er sko fullt af mikilvægu fólki í kirkjugörðunum!
Ég snarþagnaði og mellti þetta í smá tíma. Vá hvað þetta er rétt. Ég gaf henni 10 fyrir setninguna og sagðist heyra í henni bráðlega. Sendi manninn minn útí búð eftir ærlegum kvöldmat, þar sem ég hafði lítið borðað annað en verkjastillandi, sýkladrepandi og rennt þessu niður með hóstasaft.
Nú ætla ég að láta mér batna. Íbúðin má fara í drasl á meðan. Pabbar eru fullkomlega liðtækir þegar kemur af skólamálum barna - og leikskólamálum. Verkefnin bíða í kannski þetta tvo daga og ég verð orðin frísk og hress en tek því rólega þangað til.
Ég er nefninlega ekki alveg tilbúin til að fara í kirkjugarðinn, lífið er allt of mikil snilld til þess.....
Unnur - þú ert perla
Athugasemdir
Frábær vinkona sem þú átt, gefðu þér tíma til þess að láta þér batna.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.8.2008 kl. 20:01
Takk Jóna - ég er sko alveg búin að henda öllu samviskubiti út um gluggan og sit bara í mínum náttslopp og slappa af.......:)
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 22.8.2008 kl. 22:53
Þetta er snilld... Allt saman. Setning vinkonu þinnar og svo líka þetta Eureka moment þitt: pabbarnir geta þetta og verkefnin fara ekki neitt.
Takk fyrir bónorðið
Jóna Á. Gísladóttir, 23.8.2008 kl. 09:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.