6.11.2008 | 18:01
Íslenska þjóðin þarf að standa saman
Ég fagna því að sjá að slíkur hópur fólks taki sig saman og krefjist aðgerða. Ég er sammála því að nú þurfum við Íslendingar sterka og góða leiðsögn til að leiða okkur úr þessum ógöngum.
Mikill tími, reiði og orka hefur farið í að finna sökudólga, ásaka stjórnmálamenn og standa í mótmælum. Íslenska þjóðin sem og stjórnin er klofin. Fólk er ósammála um flest. Sumpart vegna eigin skoðana sumpart vegna skorts á upplýsingum.
Fólkið í landinu þarf til dæmis ýtarlegar upplýsingar um það hvað aðild að ESB felur í sér. Það eru alltaf rök með og á móti. Það á við um svo til alla hluti. En það þarf að vega og meta kosti og galla í þessum málum líkt og öðrum og það getur almenningur ekki gert án þess að vera vel upplýstur.
Það gagnast engum að hamast of lengi í fortíðinni - staðan er eins og hún er. Við þurfum að koma því til leiðar að fólkið og fyrirtækin í landinu sökkvi ekki til botns í þessu ástandi. Það þarf að skoða innflutningstolla til að auðvelda áframhaldandi innflutning þeirra fyrirtækja sem nú þurfa jafnvel að staðgreiða allt sem keypt er til landsins.
Skattlagningu fyrirtækja og almennings, lágmarkslaun, atvinnuleysisbætur ofl. Allt þarf að skoða. Stuðning við fyrirtækin í landinu.
Afnám verðtryggingar þarf að taka fyrir. Við þurfum bæði að berjast við gengið og verðtrygginguna. Fyrirtækin finna aðallega fyrir gengissveiflum, almennir landsmenn fyrir verðtryggingu - og nú stefnir á verðbólgu og atvinnuleysi. Sé það ætlunin að huga að hag þjóðarinnar, þá er þetta brýnt verkefni.
Reyndar hef ég ekki lesið Nóvemberáskorunina til hlýtar, en það sem ég hef lesið er meira og minna það sem maður hefur verið að velta fyrir sér undanfarna daga. Og einmitt líka - að hafa fólk frá ymsum stéttum og með ólíkan bakgrunn í samstarfi. Ísland er svo lítið land, klíkuskapur og vinavæðing allsráðandi sem hvergi annarsstaðar. Menntun, greind og dugnaður er ekki metinn til jafns við samflokksmann eða kunningja. Þessu þurfum við líka að breyta.
En fyrst þurfum við að standa saman og hætta að berjast innbyrgðis. Leyfa fólki að vinna sína vinnu og svo má rífast seinna þegar tími vinnst til.
![]() |
Nóvemberáskorunin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.10.2008 | 02:05
Ég hlakka til jólanna!
Jólin eru að nálgast. Að vísu eru enn góðir tveir mánuðir til jóla - en þau nálgast. Ég hef aldrei "vaxið" uppúr jólunum. Ég elska pakka vildi helst fá að opna einn fyrir matinn með börnunum. Væri líka alveg til í að setja skóinn útí glugga. En jólasveinarnir gefa víst ekki svona stórum börnum í skóinn.
Miðjan mín var ekki nema 4ja ára þegar ég byrjaði í HÍ. Á þeim árum var maður yfirleitt í prófum fram til 21. des - jólunum var svo reddað á tveim dögum - allur pakkinn. Hún rak því upp stór augu þegar hún var 9 ára og ég bakaði smákökur fyrir jólin (þá búin með skólann). "Mamma - ég hélt að þú kynnir ekki að baka piparkökur" varð henni að orði. Við sendum líka jólakort það árið og ýmislegt fleira sem hafði orðið að víkja fyrir próflestri fyrri ára.
Fyrstu jólin eftir að ég kláraði skólann lennti ég samt í tímahraki. Málið var að mér fannst ég hafa allan tímann í heiminum til að undirbúa jólin þar sem ég þurfti ekki að lesa fyrir próf. Vaknaði svo upp við vondan draum rétt fyrir jól og átti eftir að gera ansi margt.
Núna langar mig að byrja snemma á jólaundirbúning og njóta fleiri samverustunda með fjölskyldunni. Nýta helgarnar vel fram til jóla. Föndra með krökkunum, búa til jólakort, baka og bara ýmislegt. Vanda vel til jólagjafa sem sníða þarf að tíðarandanum.
Eftir þetta viðburðaríka haust þá vil ég bara vera laus við allt óþarfa stress - nú og óþarfa bruðl. Jólin verða kannski ekki hátíð kaupmanna í ár eins og þau hafa verið allt of mikið fram til þessa. Jólin verða vonandi tími fjölskyldunnar, hátíð ljóss og friðar.
Litli jólapúkinn í mér er farinn að kurra og ég er bara farin að hlakka virkilega til jólanna.
Jólin eru snilld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.10.2008 | 18:04
Alltaf að taka börnin með á djammið
Og ekki nóg með að taka þau með á djammið þ.e "samkomuna" á góðri íslensku, heldur líka að láta þau keyra sig heim. Aldur virðist vera afstæður.
Tja - það er náttúrulega gott mál að foreldrar eyði stundum með börnunum sínum í þessu hraða lífshlaupi sem við glímum við. En það má nú kannski velja þær betur - ha. Um að gera að sýna börnunum gott fordæmi ekki satt. Ætli fordæmi þessarar móður hafi verið "aldrei að keyra undir áhrifum áfengis" .............
![]() |
Lét 9 ára dóttur sína keyra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2008 | 23:51
Eiga blessaðar konurnar að "halda í sér"?
Þegar barn vill út þá er nú lítið annað að gera í málinu en að hjálpa því í heiminn. En hvað gerist nú ef ljósmæður fara í verkfall? Á þá að hjálpa verðandi mæðrum að "halda þeim í sér" með t.d. lyfjum sem draga úr samdráttum (og hægt er að gefa af hjúkrunarfræðingum) eða kalla alla tiltæka fæðingarlækna á vaktina á mun hærri launum? Eða láta pabbana fá bók þegar stundin nálgast " Að taka á móti barni for dummys"?
Ég held að ljósmæður séu nú öllu mikilvægari en stjórnmálamenn. Má ekki segja upp eins og nokkrum slíkum, lækka laun ráðherra, leysa upp einhverjar gamlar og úrelltar nefndir og hækka laun ljósmæðra.
Ég er hrædd um að ríkið verði að fórna einhverju fyrir blessuð litlu börnin.
![]() |
Ljósmæður svartsýnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
30.8.2008 | 02:34
Það er komið haust
Ég nótt sofnaði ég við að vindurinn hvein í trjánum. Í morgun var ennþá hvasst og rigningarhljóðið var notalegt. Þó svo laufin séu ekki byrjuð að fjúka af trjánum og fylla garða og holræsi þá eru merki haustsins óneitanlega komin.
Annað sterkt merki haustsins er það að gangurinn hjá mér er fullur af skólatöskum sem ég þarf að klofa yfir þegar ég kem heim. Inni í herbergi miðjunnar minnar heyrast hlátrasköll þar sem nokkrar dömur eru að "læra saman" að eigin sögn. Ískápurinn er líka fljótari að tæmast.
Litlan mín þarf að fara með útigalla með sér á leikskólann eftir helgi í fyrsta skipti. Best að kaupa vettlinga líka og annað hlýlegt. Hún er búin að vera lasin í viku litla skottið svo það er eins gott að hafa hana hlýlega klædda. Það er jú komið haust.
Ég fegin því að renndar lopapeysur eru ennþá í tísku. Það þýðir að miðjan mín frýs ekki á leið í skólann enn sem komið er. En skófatnaðurinn er annað mál. Nú þarf að kaup strigaskó sem "heita eitthvað" sem ég ekki man og kosta álíka mikið og þrjú samskonar pör í Hagkaup. Svona er þegar gelgjan fer að gera vart við sig. Það líður varla á löngu þar til mánaðarlaunin fara í tvennar gallabuxur og peysu úr einhverri tískuverslun. Mér finnst það ætti að hækka barnabæturnar þegar börnin eru að ná 12 ára aldrinum. Sérstaklega hjá fólki með stelpur. Man aldrei til þess að stráksi minn hafi verið með neitt fatavesen ever. Þau þurftu bara að passa og vera ekki of áberandi.
Kannski ég splæsi sjálf á mig nýrri yfirhöfn. Úlpan mín er eldri en litlan og það má alveg fara að skipta henni út. Jakkar duga varla mikið lengir svona einir og sér. Þó maður sé í hóp mengandi mannvera sem ferðast á bifreiðum. Seint mundi ég setjast á reiðhjól með lítið skott, heila ferðatösku af fötum og bleyjum til að hafa í leikskólann (samkvæmt lista), tölvutösku og íklædd fötum sem eru gjaldgeng á vinnustað. Fólk má alveg stofna svona vistvæna klúbba varðandi ferðamáta innan borgarinnar, kolefnisjafna og bara hvað sem er. Er mjög hlynnt þessu svo lengi sem ég þarf ekki að fara eftir stefnu þeirra sjálf. Ég vel að ferðast í bíl og nota pappableyjur og blautþurrkur svo eitthvað sé nefnt. Ef það er merki um sjálfselsku - so be it. Og ég hef ekki hugmynd um hvort klósettpappírinn hjá mér er endurunninn.
Allavega - haust. Ég bíð það velkomið. Nú fer allt í röð og reglu eftir "afruglun" sumarsins. Allir snemma að sofa og vakna snemma. Ekki bara ég og síðan fyrir skömmu - sú litla.
Og nú er ég að hugsa um að fara að halla mér enda komið langt fram yfir minn háttatíma. Vonandi fæ ég smá hvin og rigningu til að sofna við - það er fátt betra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.8.2008 | 19:55
Það er fullt af mikilvægu fólki í kirkjugörðunum......
Þetta sumar er búið að vera strembið. Það voru fjölskyldumálefni sem þurfti að takast á við, vinnan, litla barnið og margt fleira. Ég hef ekki tekið mér neitt eiginlegt sumarfrí - bara þurft að taka smá frí til að jafna mig aðeins eftir mikið álag. Síðan tók við leikskólaaðlögun, en þá var hægt að vinna á kvöldin og um helgar. En það var greinilegt að líkaminn var búinn að fá alveg nóg af þessu öllu þannig að við tók flensa sem varð fljótlega sýking í lungum. Skjálfandi af hita sat ég við tölvuna og reyndi að skila af mér verkefni. Það hafðist, en síðan versnaði flensan og önnur verkefni þurftu einfaldlega að sitja áfram óunnin á eldhúsborðinu. Heilsan var orðin ansi slæm. Maður sofnaði með litlunni og mókti og svaf til skiptis eða vaknaði við það að vera að hósta upp lungum og lifur. Og af hverju hafði maður áhyggjur? Jú - það voru verkefni sem biðu mín, skólarnir að byrja og ég alger liðleskja í þessu öllu saman. Eitt væri búið að taka við af öðru og ég var í þann vegin að hleypa mér í eitthvað vonleysi. Ég hringdi í vinkonu mína til að væla smá. Þriðji dagur á pensilini og ennþá gjörsamlega úr leik - svo var hóstað, svitnað, vælt aðeins meira. Hún leyfði mér að pústa en sagði svo við mig. Heyrðu Lísa - nú þarft þú bara að hugsa um að jafna þig og komast til heilsu. Það er sko fullt af mikilvægu fólki í kirkjugörðunum!
Ég snarþagnaði og mellti þetta í smá tíma. Vá hvað þetta er rétt. Ég gaf henni 10 fyrir setninguna og sagðist heyra í henni bráðlega. Sendi manninn minn útí búð eftir ærlegum kvöldmat, þar sem ég hafði lítið borðað annað en verkjastillandi, sýkladrepandi og rennt þessu niður með hóstasaft.
Nú ætla ég að láta mér batna. Íbúðin má fara í drasl á meðan. Pabbar eru fullkomlega liðtækir þegar kemur af skólamálum barna - og leikskólamálum. Verkefnin bíða í kannski þetta tvo daga og ég verð orðin frísk og hress en tek því rólega þangað til.
Ég er nefninlega ekki alveg tilbúin til að fara í kirkjugarðinn, lífið er allt of mikil snilld til þess.....
Unnur - þú ert perla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.8.2008 | 01:22
Það er yndislegt að vera kona!
Hvaðan kom þessi titill? Jú, ég var að skoða innlegg um konur og fegurð. Einhver bæjarstjóri í henni Ástralíu gaf út þá yfirlýsingu að bærinn hans væri kjörinn staður fyrir ófríðar konur sökum þess að fimm karlmenn væru um hverja konu. Úff bara hugsaði ég. Þvílík smásál. Sem betur fer stukku karlmenn úr hverju horni og blogguðu um fegurð konunnar!!
Að mínu mati kemur fegurðin innanfrá og hún eykst með þroska og aldri konunnar. Sérhver manneskja hefur líka útgeislun sem sjaldnast næst á mynd en getur gert hvern sem er að fegursta undri veraldar. Það er til dæmis talað um útgeislan ófrískra kvenna. Manni líður sjaldnast eins illa eins og einmitt á meðgöngu (mér að minnsta kosti) en samt glóir maður af gleði.
Og bara allt í einu fór ég að hugsa um hvað ég væri heppin að vera kona. Þegar börnin mín líta á mig veit ég að þau sjá fallegustu og elskuðustu mannveru í heimi. Ekkert annað skiptir máli á þeirri stundu. Ég er kona og ég get gert það sem ég vil. Ég hef menntað mig, en samt hef ég ekki áhuga á því að vera í brjáluðu framakapphlaupi. Ég er nefninlega kona og mamma. Ég get verið ánægð með sjálfa mig þótt ég stefni ekki á toppinn í mínu fagi. Það tekur tíma frá því dýrmætasta sem ég á - fjölskyldunnar minnar.
Karlmönnum er mun meira otað út í framakapphlaup, jafnvel á dögum feðraorlofs. Rauðsokkur vilja jöfn kjör og jafna möguleika við karlmenn. Jú jú - ef maður vill fórna lífinu fyrir það og vinna öllum stundum. En ég kýs það að vera kona - ég er kona - og mennirnir mega vel vinna meira en ég og fá eitthvað hærri laun fyrir vikið. Og kannski hafa þeir ekkert val.
Það er yndislegt að vera kona. Líða vel í vinnunni, líða vel í eldhúsinu og bara að vera sáttur við sjálfa sig. Hafa takmarkaðar áhyggjur af appelsínuhúð eða hrukkum - það er landlægur andskoti sem mun fyrr eða síðar skjóta upp kollinum. Þá bara brosir maður breiðar og þá tekur enginn eftir einhverjum aukalínum við augun.
Lífið er snilld stelpur - njótum þess eins og við erum!!!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)