Opið bréf til ríkisstjórnar og annarra ráðamanna

Ágætu ráðamenn þessa lands.

 

Í lok ársins 2008 hafði ég óflekkaðan feril í að standa í skilum með allt mitt. Nafn mitt hafði aldrei farið á vanskilaskrá. Ég er vel menntuð, var í góðri vinnu og hef í gegnum tíðina fengið góð meðmæli.

 

Síðan var fótunum kippt undan einstaklingum eins og mér. Sjálf gerði ég ekki neitt til að eiga það skilið. Allt í einu gat ég ekki borgað námslánin mín og reyndi ítrekað að fá LÍN til að frysta greiðslur þar sem ég hafði ekki atvinnu. Eftir árs ferli í að reyna að ná samningum var heildarupphæð námslánanna þinglýst sem fjárnám í eign minni. Engu að síður var ég þá komin með mín mál til Umboðsmanns skuldara.

 

En sagan er bara rétt að byrja. Ég stóð nú í þeim sporum að eiga að framfleyta mér og börnum mínum á bótum, sem eru langt undir neysluviðmiðum og hafa ekkert hækkað þrátt fyrir hækkun alls annars í þjóðfélaginu. Meðlögin hafa að sama skapi staðið óbreytt. En húsnæðislánið mitt vex og dafnar. Íbúðinni minni, sem ég hafði tekið 60% lán til að kaupa hefur verið ráðstafað á einhvern hátt sem ég ekki skil. Lánið var tekið hjá SPRON. Allt í einu og án mín samþykkis er það komið í umsjón Arion banka og hefur tekið stakkaskiptum.

 

Það merkilega er að stjórnvöld leyfa þetta allt saman. Ekkert er gert í hinu blómlega atvinnuleysi. Ekkert er gert í ofurálögum á fólk. Ekkert er gert í rániðju bankanna. Ekkert er gert fyrir einstæða móður eins og mig. Ég má horfa á ríkisstofnanir taka fjárnám í íbúðinni minni og bankana sölsa hana undir sig. Ég má horfa á hækkun rafmagns og hita. Hækkun bensínverðs. Hækkun matvöru. Hækkun leikskólagjalda. Hækkun alls, nema þeirra bóta sem ég á að nota til að mæta þessum hækkunum.

 

Nú spyr ég. Hvað hef ég og aðrir í minni stöðu, gert til að verðskulda þetta? Ég tók ekki ofurlán. Ég greiddi af mínu. Ég menntaði mig. Ég vann og greiddi mína skatta. Ég sá um heimilið og börnin.

 

Er eitthvað athugavert við að fólk í minni stöðu krefjist leiðréttingar? Ég hef ekki brotið neina samninga. Mínir samningar voru gerðir við eðlilegar kringumstæður og tóku mið af þeim. Þá samninga stóð ég alltaf við. Ég held að ekki sé hægt að krefja fólk um að standa við gjörbreytta samninga vegna skilyrða sem það fær enga rönd við reist.

 

Það er kominn tími til að tekið sé á málum almennings.

 

Með kærri kveðju.

 

Lísa Björk.


mbl.is Enn föst í viðjum hrunsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl Lísa Björk; æfinlega !

Helvítis Stjórnarráðs gungurnar; skilja ekki alvöru málanna, fyrr en þau hafa verið færð, í striga sekki væna, og flutt;; að Brúará (Grímsness meg in).

Til; að minna þau á, hversu fór, fyrir Jóni Gerrekssyni, á öldinni 15., sem I. skref, brýnna aðgerða, gegn þeim.

Með kærri kveðju; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 15:20

2 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Já minn ágæti Óskar. Við sótsvartur almúginn sem höfum það eitt til saka unnið að reyna að standa okkur í stykkinu, megum sitja með heftiplástur yfir munninum og horfa á þá sem stjórna landinu (og vini þeirra) gera okkur að eymingjum.

Ég er ekki alveg tilbúin til að kyngja því svona átakalaust og hef ítrekað rifið heftirplásturinn af - og mun gera þótt ekkert skinn verði eftir.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 10.3.2011 kl. 15:31

3 identicon

Heil; á ný, Lísa Björk !

Stend með þér; sem öðrum þjóðfrelsissinnum, allt til enda baráttu þeirrar, sem framundan er; óhjákvæmilega.

Með; þeirri sömu kveðju, sem fyrri /

Óskar Helgi

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 15:39

4 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Þakka þér minn ágæti.

Sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 10.3.2011 kl. 16:08

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta bréf er skrifað frá hjartanu Takk fyrir einlægnina.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.3.2011 kl. 22:14

6 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Takk Rakel mín. Já, það sem kemur frá hjartanu er heiðarlegt og gott. Enginn ætti að skammast sín fyrir að vera einlægur.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 10.3.2011 kl. 23:08

7 identicon

Takk fyrir Lísa Björk - þú lýsir veruleika mínum nokkuð nákvæmlega- þó sorglegt sé fann ég til léttis við að lesa bréfið þitt- létti sem maður finnur þegar maður veit fyrir víst að maður er ekki einn á báti.

Sigrún Sif Jóelsdóttir (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 23:39

8 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Takk fyrir góð orð Sigrún. Við erum svo fjöldamörg í þessari stöðu. Stöðu sem við komum okkur ekki í sjálf. Stöðu sem sumir skammast sín fyrir. En það er óþarfi. Skömmin er ekki okkar. Það er enginn sem segir að við eigum að láta þetta yfir okkur ganga. Við höfum líka vægi, sem einstaklingar - hópur af fólki sem hefur í raun verið brotið á. Stöndum saman og að lokum verður einhver að hlusta.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 11.3.2011 kl. 00:32

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Frábær pistill hjá þér Lísa...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.3.2011 kl. 02:04

10 Smámynd: Sævar Einarsson

Góð! hnitmiðaður pistill hjá þér vinan og vonandi fer þessi aumasta ríkisstjórn sem Ísland hefur haft að skila af sér lyklavöldum, hér þarf utanþingstjórn og það ekki seinna en í gær, og ef hún gerir það ekki þá þarf að koma henni frá með valdi!

Sævar Einarsson, 11.3.2011 kl. 02:16

11 Smámynd: Dexter Morgan

Eins og talað út úr mínum munni. Þetta er auðvita gert með fullum ásetningi; að láta okkur "venjulega" fólkið borga brúsann. Ekki á ég flatskjá, ek um að 20 ára gömlum jeppaskrjóð, ekki farið í utanlandsreisu í 10 ár, en keypti mér hús árið 2006. Og það stefnir í að bankinn fái lyklavöldin.

Það hlýtur að koma að því að við; "hin venjulegi íbúi þessa lands" gerum uppreisn og krefjumst leiðréttingar á okka málum, sérstaklega í ljósi frétta undanfarið um ofurlaun í bönkunum og gróða þeirra.

Með baráttukveðjum.

Dexter Morgan, 11.3.2011 kl. 08:18

12 Smámynd: Guðmundur Kjartansson

Sæl Lísa Björk:

Það er ansi harkalegt að horfast í augu við það, en skilaboðin sem forsætisráðherra sendi frá sér í nóvember sl. segja skýrum rómi: "Ykkur verður ekki hjálpað frekar. Bjargið ykkur sjálf!"

Það varð semsagt niðurstaðan að láta okkur um glímuna við skrímslið. Engar afskriftir, ekkert gefið eftir - nema það sem Hæstiréttur ákvarðar í þeim fjölda mála sem þar hafa endað. Bankarnir eru eins og kamelljón frammi fyrir dómum réttarins og kannast ekki við neitt. Allir þykjast þeir hafa verið með "öðruvísi" lán sem falli alls ekki undir gildissvið nýfallinna dóma og þessi uppreisn þeirra heldur áfram þótt þeim hafi 28. desember sl. verið gert með lögum frá Alþingi að HÆTTA þessu sprikli og leiðrétta alla lánaflokka.

Þeir fengu kröfusöfn gömlu bankanna á 20-60% afslætti og eru nú að innleysa það sem með stóru skáldaleyfi er kallað hagnaður. Það eru skilvísir lánþegar  sem leggja þeim til hagnaðinn. 

Á meðan liggja 2000 milljarðar af sparifé landsmanna á reikningum bankanna hjá Seðlabanka Íslands - þar sem þeir njóta ríkulegra ávaxta sem 95% af fátækasta fólki landsins greiðir af þeim renturnar.

Það er vansögn að segja að hér hafi öllu verið snúið á haus.

Þú veist hvað þú þarft að gera.

Kveðja, 

Guðmundur Kjartansson, MBA / BA Cand. Oecon. Rockford College 1994

Guðmundur Kjartansson, 11.3.2011 kl. 08:47

13 identicon

Frábær grein Lísa og svo sannarlega réttmæt og eðlileg krafa af þinni hálfu að það sé eitthvað gert eitthvað af viti í málum almennings.
'A sama tíma og bankar sýna metgróða á ný sökum þess að endurheimtur hafa verið betri úr lánasöfnum sem á sýnum tíma voru afskrifuð að stórum hluta þá er almenningur ekki látin njóta þess.

Haltu áfram góðum greinarskrifum og góðri baráttu en samt tel ég að það þurfi að fara að grípa til róttækra aðgerða á ný og "Tunna" fjármálafyrirtæki.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 11.3.2011 kl. 08:48

14 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Þetta er ömurleg staða -ekki stoðar að treysta á stjórnvöld - aðstoðarmaður Jóhönnu lokaði á mig á facebook nokkrum klukkutímum eftir að við gerðumst vinir á facebook. Mér varð það á að halda að ég hefði mál- og tjáningarfrelsi. En ég fór yfir strikið - gagnrýndi stjórnina m.a. v bankamálanna og þeirra staðreyndar að fólk sem á varla eða ekki fyrir mar væri að greiða rugllaun bankastjóranna og á sama tíma er eignaaukning Arion talin í tugum eða hundruðum milljarða. Á sama tíma og verið er t.d. að þjarma að þér.

Steingrímur hefur setið í ríkistjórn áður - vinnubrögðin þá voru þau sömu og nú - þá voru m.a. með honum Svavar Icesave - Ólafur Ragnar - Ragnar Arnalds og aðrir slíkir snillingar.

ég lenti í "stóru verðbólgunni" ( sem fór allt að 120% - en var lengi 60-80% )  fyrir rúmum 20 árum  Með 2 íbúðir - bát o.fl. giskaðu á hvernig það endaði - þá var ekkert talað um "skjaldborg um heimilin" . Reyndar er hún í dag ekkert annað en tal

KB banki = Arion - ég lenti í honum vegna sonar míns - því miður get ég ekki tjáð mig eins vert væri um vinnubrögðin þar - það yrði flokkað sem meiðyrði og rógur þótt hvert einasta orð væri satt og rétt.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 11.3.2011 kl. 09:24

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábær grein hjá þér Lísa Björk. Já látum þetta berast.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.3.2011 kl. 11:13

16 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Þakka ykkur öll fyrir innlitið og frábær svör. Það ætti að vera krafa okkar að fá leiðréttingu líkt og bankarnir fengu eignasöfnin á gífurlegum afslætti. Það er nú þegar búið að afskrifa stórna hlut þessara eigna og því ekkert réttlæti í því að krefja fólk um greiðslur af fullum þunga. Sér í lagi þar sem verðtryggingin t.d. er einhliða. Laun hækka ekki. Bætur hækka ekki. Skattastefna ríkisstjórnarinnar kemur í veg fyrir að hagkerfið nái að jafna sig því það er engin innspýting í uppbyggingu atvinnulífs og neysla fólks dregst saman.

Það hlýtur að vera krafa almennings í landinu að tekið sé á málum með þeim hætti að hér geti fólk haldið áfram að lifa, stunda atvinnu og framfleyta sér og sínum.

Hér þarf átak allra landsmanna.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 11.3.2011 kl. 16:11

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já algjörlega sammála.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.3.2011 kl. 18:06

18 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

ísland er í sömu stöðu og lýbía þar sem einræðisvaldið hefur ekki farið þrátt fyrir byltingu, það er í raun fjárhagslegt stríðsástand þar sem eignir almennings eru gerðar upptækar samkvæmt því sem best er lýst sem herlög.

Mistökin sem almenningur er að gera er að reyna að hegða sér eins og venjuleg lög gildi, það gilda herlög núna og fólk verður að beita þeim meðulum sem beitt er í stríði, koma saman, mynda fylkingu og reka árásarherinn af landi brott, það er eina leiðin. Að nöldra á blogginu breytir engu.

Axel Pétur Axelsson, 12.3.2011 kl. 14:06

19 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hvenær fáum við svo mikið nóg að við förum út á göturnar og heimtum ráðamenn frá og ræningjana bak við lás og slá?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.3.2011 kl. 17:27

20 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Eru ekki Íslendingar í raun afar friðsöm þjóð sem reyna til hins ítrasta að fara friðsamar leiðir að takmarkinu? Við höfum tækifæri til að taka stórt skref og segja NEI við Icesave og sýna þar með hug okkar í verki, án átaka.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.3.2011 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband