Spegill spegill, herm þú mér......

Apríl 2008.

Það er svo dásamlegt að finna vorið í loftinu. Klukkan er 7:30 og eldri dóttir mín að taka sig til í skólann, full tilhlökkunar vegna þess að nú styttist í páskafrí. Ég finn til vinnufötin og lít í spegilinn. Jú - klár í annasaman dag á skrifstofunni. Margt þarf að klára fyrir páska. Mánaðaruppgjör stærri fyrirtækjanna þurfa að vera klár. Ég heyri að litla dóttirin umlaði eitthvað í svefninum. Þetta hafði verið óróleg nótt þar sem sú stutta var með eyrnabólgu eina ferðina enn. En núna kúrði hún hjá pabba sínum og var ennþá í fasta svefni. Ég brosti og hlýnaði um hjartaræturnar við tilhugsunina um að geta eytt páskunum með fjölskyldunni í rólegheitum. Brosandi held ég út í daginn full bjartsýni og tilhlökkunar.

Apríl 2011.

Nú - það er snjór - aftur. Getur veðrið ekki einu sinni verið til friðs. Það var árshátíð hjá unglingsdóttur minni í gær og því förum við allar mæðgurnar á sama tíma útúr húsi þennan morgunin. Ég hendi mér í gallabuxurnar og lít í spegilinn. Skildi það vera ég eða fjandans bankinn sem á þennan spegil svona ef maður hugsar útí það? Sú litla er að horfa á mynd meðan hún borðar morgunmatinn sinn áður en ég skutla henni í leikskóla og þeirri eldri í skólann. Velti því fyrir mér hvað ég eigi að gera eftir það. Jú - atvinnuleysisbæturnar komu eftir smá þref svo kannski væri ekki fjarri lagi að fara í Bónus og reyna að finna út úr því hvernig hægt væri að halda páska á sem ódýrastan hátt með telpunum mínum. Það hlyti að vera hægt að finna eitthvað til að gera smá dagamun. Við röltum útí bíl - þessir bensíndropar (eða ætti ég að segja gulldropar) ættu að duga eitthvað ef maður heldur sig við "leikskóla - útíbúð - heim" rúntinn. Glaðlega kveð ég telpurnar, en gleðin er bara á yfirborðinu. Áhyggjur af framtíðinni blunda alltaf undir niðri.

Ég kem heim og renni yfir fréttir blaðanna. Hvað gerðist hérna eiginlega? "Icesave" ómar eins og geitungasuð í hausnum á mér. Hvurn fjandann kom mér annars þetta Icesave við? Ekki gerði ég neitt til að koma þessum ófögnuði í gang. En í rúm tvö ár hefur allt lífið snúist um Icesave og allan fáránleikann, skrípaleikhúsið í kringum þetta.

Ég lít aftur í spegilinn - fjandakornið ef ég ætla að láta bjóða mér og börnunum upp á þetta. Það má vera að vinnan á skrifstofunni býði ekki lengur. En það er mun mikilvægara verk sem býður. Já - hugsa ég. Ef ríkisóstjórnin ætlar ekkert að gera fyrir fólkið í landinu þá er þess mikilvægara að fólkið í landinu geri þess meira sjálft.

Hingað og ekki lengra hugsar konan í speglinum - og gott ef það er ekki vonarglampi í augunum.


mbl.is Ráðgáta að Ísland skyldi ekki vísa í 111. grein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir "skemmtilega" hugleiðingu.  Ég man líka apríl 2008 þá var mikið að gera, var með tvö fyrirtæki í rekstri, annað í byggingariðnaði með 12 starfsmenn börnin mín þar á meðal, hitt í fasteignarekstri.  Páskafríð for í gæluverkefnið mitt að standsetja orlofshús á sælureit við sjóinn.

Núna er ég í svipaðri stöðu og svo margir, reyni að fljóta á atvinnuleysisbótum.  Páskarnir í ár fara í Noregsferð þar sem við ætlum að heimsækja fyrrum félaga í fyrirtækjarekstrinum, sem hafa búið þar síðan 2009 og hafa það gott.  Ég hef látið þrjóskuna ráða hingað til, ætla ekki að láta "hyskið" hrekja mig frá landinu mínu.

Magnús Sigurðsson, 15.4.2011 kl. 11:54

2 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Takk fyrir innlitið Magnús. Nú er það fólksins í landinu að vinna saman að betri apríl 2012 og enn betri 2013.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 15.4.2011 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband