Færsluflokkur: Bloggar
Alls ekki útaf ákvörðun Lilju og Atla. Það er sennilega besta ákvörðun sem ég hef frétt af lengi. Enda erum við hér með vandað fólk sem lætur sig almenning varða. Lætur ekki vaða ofaní sig. Sennilega eina fólkið sem á með réttu ætti heima í velferðarstjórn. Hitt eru bara svik og prettir.
Það kom að sjálfsögðu ekkert á óvart að flokkurinn styddi AGS og að AGS væri í raun hér við fjármálastjórn. Enginn Íslendingur mundi fara svona illa með þjóð sýna sjálfráða (vona ég).
Það sem tók steininn úr var að Össur (og hans Samfylkingarfólk) ætluðu sér að koma landinu í ESB bak við tjöldin. Logið er að þjóðinni fram og til baka. Bæði Jóhanna með sína ESB dillu og Steingrímur sem mundi gefa hvað sem er fyrir völd og frama - og lætur AGS rústa hér efnahagslífi, arðræna heimili og fyrirtæki. Allt undir nafni vinstri velferðarstjórnar.
Svo virðist sem Forsætisráðherra skynji ekki þá staðreynd að Íslendingar vilja ekki ESB! Hvað þá heldur að hún átti sig á að við viljum hana ekki í þessu sæti. Ætlar hún virkilega að fara að reyna að semja við þriðja flokkinn?
Sá hinn sami mundi þá laglega skjóta sig í báða fætur - ef ekki hausinn líka.
Þetta er orðið of sjúkt til að hægt sé í raun að tala um þetta. Lygarnar og spillingin er komin í hæstu hæðir (og það eftir útgáfu Rannsóknarskýrslunnar).
Ef þessir svikahrappar þarna í forsvari stjórnarinnar fara ekki að átta sig og segja af sér þá vona ég heitt og innilega að þessari stjórn verði slitið með forsetavaldi innan fárra daga.
Lilju og Atla mun vegna vel - enda heilsteypt, gáfað og gott fólk þar á ferð. Veit ekki hvað hægt er að segja um samflokksmenn þeirra sem hafa látið foringja sinn svíkja eitt helsta kosningarloforð VG - EKKI ESB.
Talandi um að selja ömmu sína.
Svo er orðið svo stutt í blótið - að ég er að hugsa um að hætta núna.
Ætla ekki að styðja stjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.3.2011 | 16:11
Harakiri á Íslandi
Nú þegar er skattpínan að drepa niður hagvöxtinn. Skattpínan sem á að færa ríkinu tekjur til að borga skuldir. Vissulega er það ekki rétta leiðin til að auka framleiðni og hagvöxt. En núverandi skuldir eru þegar meiri en við ráðum við.
Svo á að bjóða okkur aukaskammt af skuldum í boði Breta og Hollendinga. Auka aðeins við skattpínuna og skilja ekkert í því af hverju hagvöxturinn eykst ekki. Breyta tugmiljarðagati í Svarthol.
Ekki get ég séð hvernig þetta dæmi á að ganga upp.
Bretar munu hafa hér yfirráð og stjórna aulindum okkar áður en langt um líður. Erlendir kröfuhafar verða búnir að sölsa undir sig fyrirtæki og heimili í boði ríkisstjórnarinnar.
Það er bara eitt orð sem mér dettur til hugar.
HARAKIRI
Viðkvæm staða ríkissjóðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.3.2011 | 18:14
Á að ganga á jarðvarmann núna?
Auðlindirnar okkar eru mikilvæg og stór eign. Einmitt þeirra vegna megum við ekki afselja þær með því að veðsetja landið okkar til Bretlands.
Jarðvarmi er ekki endurnýjanleg auðlind og það þarf að huga vel að notkun þessarar auðlindar.
Ég vona að ekki sé verið að þjarma að okkur á nýjum vígstöðvum með þessu. Evrópa vill fiskinn okkar, jarðorkuna - allt klabbið. Þarna gæti verið ástæðan fyrir láninu til Landsvirkjunnar.
Ég veit ekki alveg - finnst hálfgerð skítalykt af málinu. Allavega eins og ríkisstjórnarmál standa í dag.
Við ættum ekki að semja um neitt fyrr en við höfum neitað Icesave. Þá má kannski semja svo lengi sem einhver sem hefur vit á auðlindafræði stjórnar þeim málum. Og ATH - er ekki á valdi ríkisstjórnar nútímans.
Rafstrengur til Bretlands? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2011 | 01:03
Þakka þér fyrir - ég vona að þjóðin eigi traust þitt skilið.
Sjaldan hefur einni þjóð verið sýnt jafn mikið traust. Persónulega er ég viss um að með alla sína menntun og innsýn í hagi þjóðarinnar, þá hefði forsetinn ekki sent þetta áfram til þjóðarinnar ef þetta hefðu verið góðir samningar.
Hann veit nefninlega sýnu viti án þess að geta kannski sagt það beint.
Málin sem við stöndum frammi fyrir virðast mörgum flókin, en eru það í raun ekki. Fólk fjasar um innistæðutryggingar ( sem engin lög eru fyrir að við eigum að setja í ríkisábyrgð). Fjármálaelítan krefst þess að við samþykkjum (auðvitað - annars mundi hún líða undir lok í núvernadi mynd - og ekki vill hún það). Ríkisstjórnin gerði stór mistök - og gerir enn, en það er pólitískt mál, ekki almannahagur.
Hrindum þessu frá okkur og horfum á staðreyndir. Stóru bankarnir fóru allri á hausinn. Hver á þessa banka í dag? Kröfuhafar. Þeir vilja fá sína peninga aftur - og þeim er sama þó svo íslensk fyrirtæki og heimili blæði út. Það er ekki þeirra mál. Stjórnin gerði stóran feil í því að vera ekki á sama máli og hæstiréttur (enda pólitíkusar) og setti lög sem gera bankana stikkfrí í að koma eignanámi á eignir okkar Íslendinga.
AGS vinnur fyrir kröfuhafa - ekki halda að þeir vinni fyrir almenning.
Icesave er svo bara kirsuberið á toppnum. Þegar við erum búin að missa allt okkar til erlendra kröfuhafa - vegna mistaka í löggjöf, þá fá þeir veð yfir auðlindum okkar ef Íslendingar segja já við samningunum.
Auðvitað getum við ekki borgað - eins skuldug og við erum. Hvað þá ef við aukum skuldirnar.
Það eina sem við getum - og verðum að gera - er að snúa vörn í sókn. Samræma lögin aftur stjórnarskrá og neytendum. Koma í veg fyrir eignaupptöku fyrirtækja og heimila. Og alls ekki gefa annarri þjóð veðrétt yfir auðlindum okkar.
Þetta er það sem forsetinn veitti okkur vald til að gera.
Við eigum ekkert í þessum bönkum - þeir eru alfarið í eigu kröfuhafa. Okkur var hinsvegar gefinn kostur á að verja okkur sem þjóð og lýðveldi.
Notfærum okkur þetta vald sem forsetinn veitti okkur til að bjarga þjóðinni - þrátt fyrir háværar mótbárur ríkisstjórnarinnar. Ekki hefur hún beint verið að vinna á okkar bandi er það.
Sýnum í verki að við séum traustsins verð og að við séum Íslendingar fremur en spilltir stjórnmálaáhangendur.
Heil þjóð er í veði. Ekki bregðast henni.
Traust til forsetans eykst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.3.2011 | 10:16
Held ekki að það sé Icesave sem stendur í kokinu á öllum lánveitendum.
Hræðsla landans um að við verðum útskúfuð og fáum hvergi fjármagn ef við semjum ekki um Icesave tel ég hér hafa afsannast.
Auðvitað vilja fjármagnseigendur og þeir sem græða á því að við samþykkjum og fáum þar með greiðari leið inn í ESB fá þennan skuldabagga í gegn. Enda hafa þeir sennilegast efni á að borga eða getað komið sér úr landi ef hér fer allt á hliðina.
Ríkisstjórnin sér pólitískan ávinning í að ná í gegn þessum samningum. Hefur lítið með velferð almennings að gera. Hún virðist frekar trú AGS sem hefur farið illa með marga þjóðina.
Þið megið kalla mig vitlausa - eða hvað sem helst. En ég er ekki að kaupa þann áróður sem rekinn er í því skini að við verðum Kúba Norðursins ef við ekki samþykkjum.
Hins vegar er trú almennings á stjórn landsins það sem öllu skiptir um að litið sé á hagkerfi sem traustvekjandi. Slíkt er ekki til staðar hér, né verður með samþykki á Icesave.
Ég tel góðar líkur á því að allar þessar auknu ríkisskuldir geti skapað hér viðvarandi fáttækt og niðurskurði. Jafnvel sett landið á hliðina. Enda hafa rök margra góðra manna og kvenna mér fróðari bent til þess.
Ég kæri mig lítið um að búa við slíkt ástand. Þetta er komið gott.
Landsvirkjun fær lán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.3.2011 | 20:41
Og heimskur hlær því hann þekkir ekki söguna. Hagkerfið í gang.
Eftir þessa minnispunkta um hið ónýta ríkismark eftir stríð er fólki heimilt að hlæja að einni bestu lausn okkar mála sem Lilja Móses hefur mælt fyrir - enn ekki fyrr en eftir þetta ágrip. Fólki er fullkomlega í sjálfsvald sett að leita frekari heimilda.
Eftir seinni heimstyrjöldina héldu Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar gjaldmiðli Þjóðverja niðri, ríkismarkinu. Það voru alls kyns verðhöft sem komu niður á m.a.launum, leigu og almennum reglum um fjármál þjóðverja. Útkoman var hagfræðileg skelfing fyrir Þjóðverja. Verðbólgunni hafði verið haldið í skefjum með þessum höftum en um leið og losað var um þau óð verðbólgan upp að nýju.
Í júní 1948 var loksins leyst úr þessu vandamáli þegar ríkismarki (Reichsmark) var skift út fyrir Þýska markið (Deutchemark). Athugast skal að verðtrygging var ekki til staðar.
Eftirfarandi breyting átti sér stað:
Gerð reiknings | Upphæð | Breyting |
Einstaklingar | 600 ríkismörk | 1 ríkismark = 1 Dmark |
Einstaklingar yfir 600 RM | 10 ríkismörk = 1 Dmark | |
Fyrirtæki | 60 ríkismörk á einstakl. | 1 ríkismark= 1 Dmark |
Hið opinbera | Mánaðarlaun | 1 ríkismark = 1 Dmark |
Aðrir | 10 ríkismörk = 1 Dmark. |
Skuldum var breytt á genginu 10:1 Dmark
Gjaldeyrisstöðum banka og skuldabréfum í Ríkismörkum var eytt en fengu í staðin 4% (eða 25:1 Dmark). Innistæðureikningar Seðlabanka fengu 15% Bankareikningar fengu 7,5% eignir og 3,75% fyrir skuldir (innistæður almennings). Þannig höfðu bankarnir ennþá möguleika til að halda áfram lánastarfsemi.
1949 jókst iðnaðarframleiðsla um 24% og 12% á fyrri helmingi árs 1950. Strax árið 1948 jukust störf um ca 40% en dró úr aukningu starfa ári síðar.
Stærsta vandamálið var skortur á höfuðstól Dmark. Það örsakaðist vegna eyðileggingar stríðsins en umbætur vegna þess voru mjög kostnaðarsamar og höfðu það mikil áhrif á höfuðstólinn að fjárfestar voru hræddir um að fjárfesting þeirra mundi ekki verða arðbærar í framtíðinni.
En hagnaður jókst þar sem laun hækkuðu ekki jafn ört og framleiðni.
Hagkerfi Þjóðverja var komið á fullan skrið þrátt fyrir ónýtan gjaldmiðil tveim árum áður en þó með innlendan og sjálfstæðan gjaldmiðil.
Steingrímur vill byggja á krónu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.3.2011 | 17:15
Af hverju ég segi NEI við Icesave!
Þann 9. apríl næstkomandi mun ég fara á kjörstað og segja NEI við Icesave III.
Í þessum máli treysti ég eigin innsæi fremur en því sem ég kalla hræðsluáróður stjórnvalda, bæði hér og erlendis.
Ég er sannfærð um að ef Bretar, þessi valdamikla þjóð, teldi sig koma vel frá dómstólaleiðinni - þá væri löngu búið að fara hana. Að Bretar séu að vera með einhverja greiðvikni tel ég algjörlega út úr myndinni. Hinsvegar held ég að þeir notfæri sér hræðslu þeirra sem sitja við völd. Á Alþingi eru enn þeir flokkar sem komu að hruninu og sama ríkisstjórn og kom fram með seinustu samninga.
Ég velti fyrir mér ástæðu þess að hægt sé að koma við betri samningum nú en áður. Mín skoðun er sú að Bretar vilji umfram allt semja og alls ekki fara dómstólaleiðina.
Ég hræðist ekki þetta stóra vald Breta. Ég hræðist hinsvegar mjög þær skuldir sem þjóðin mun steypa sér í. Þjóð sem er nú þegar það stórskuldug að almenningi blæðir hægfara út vegna skattaálaga svo eitthvað sé nefnt.
Ég hræðist líka að með samþykki samninganna sé verið að styðja þá ríkisstjórn sem hefur ekkert viljað gera fyrir almenning.
Margir eru þeirrar (réttlátu) skoðunnar að stokka þurfi upp í því valdakerfi og þeirri pólitík sem við höfum setið uppi með í áratugi. Þetta er tækifærið að fyrsta stóra skrefinu í þá átt. Að neita að taka ábyrgð á gjörðum auðmanna sem studdir voru af stjórnvöldum sem enn sitja. Neita áframhaldandi spillingu.
Krafan um réttlæti hefur fengið dagsetningu. Dagsetningin er 9. apríl 2011.
Stöndum saman, krefjumst réttlætis.
Kynna rök gegn Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.3.2011 | 14:52
Opið bréf til ríkisstjórnar og annarra ráðamanna
Ágætu ráðamenn þessa lands.
Í lok ársins 2008 hafði ég óflekkaðan feril í að standa í skilum með allt mitt. Nafn mitt hafði aldrei farið á vanskilaskrá. Ég er vel menntuð, var í góðri vinnu og hef í gegnum tíðina fengið góð meðmæli.
Síðan var fótunum kippt undan einstaklingum eins og mér. Sjálf gerði ég ekki neitt til að eiga það skilið. Allt í einu gat ég ekki borgað námslánin mín og reyndi ítrekað að fá LÍN til að frysta greiðslur þar sem ég hafði ekki atvinnu. Eftir árs ferli í að reyna að ná samningum var heildarupphæð námslánanna þinglýst sem fjárnám í eign minni. Engu að síður var ég þá komin með mín mál til Umboðsmanns skuldara.
En sagan er bara rétt að byrja. Ég stóð nú í þeim sporum að eiga að framfleyta mér og börnum mínum á bótum, sem eru langt undir neysluviðmiðum og hafa ekkert hækkað þrátt fyrir hækkun alls annars í þjóðfélaginu. Meðlögin hafa að sama skapi staðið óbreytt. En húsnæðislánið mitt vex og dafnar. Íbúðinni minni, sem ég hafði tekið 60% lán til að kaupa hefur verið ráðstafað á einhvern hátt sem ég ekki skil. Lánið var tekið hjá SPRON. Allt í einu og án mín samþykkis er það komið í umsjón Arion banka og hefur tekið stakkaskiptum.
Það merkilega er að stjórnvöld leyfa þetta allt saman. Ekkert er gert í hinu blómlega atvinnuleysi. Ekkert er gert í ofurálögum á fólk. Ekkert er gert í rániðju bankanna. Ekkert er gert fyrir einstæða móður eins og mig. Ég má horfa á ríkisstofnanir taka fjárnám í íbúðinni minni og bankana sölsa hana undir sig. Ég má horfa á hækkun rafmagns og hita. Hækkun bensínverðs. Hækkun matvöru. Hækkun leikskólagjalda. Hækkun alls, nema þeirra bóta sem ég á að nota til að mæta þessum hækkunum.
Nú spyr ég. Hvað hef ég og aðrir í minni stöðu, gert til að verðskulda þetta? Ég tók ekki ofurlán. Ég greiddi af mínu. Ég menntaði mig. Ég vann og greiddi mína skatta. Ég sá um heimilið og börnin.
Er eitthvað athugavert við að fólk í minni stöðu krefjist leiðréttingar? Ég hef ekki brotið neina samninga. Mínir samningar voru gerðir við eðlilegar kringumstæður og tóku mið af þeim. Þá samninga stóð ég alltaf við. Ég held að ekki sé hægt að krefja fólk um að standa við gjörbreytta samninga vegna skilyrða sem það fær enga rönd við reist.
Það er kominn tími til að tekið sé á málum almennings.
Með kærri kveðju.
Lísa Björk.
Enn föst í viðjum hrunsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
7.3.2011 | 21:25
Hvernig ber að sanna ofbeldi?
Í síðasta mánuði lásum við í blöðunum um dóm sem var einsdæmi. Kona sem hafði flúið með börn sín hingað, en faðir krafðist að fá þau til baka - fékk náð fyrir augum dómsins.
Afhverju? Jú - hún var með morðhótun uppá vasann - frá föður barnanna. Slíkt telst sönnun.
Við lásum líka í síðasta mánuði um konu sem flúði hingað með dætur sínar. Um ofbeldi og aðstæður þeirra í Danmörku (sennilega ósannanlegt samkvæmt dómi). Þeirri konu var gert að hverfa aftur til ofbeldismannsins með telpurnar. Í kjölfarið lásum við bréf eldri sonar hennar sem hann sendi til alþingismanna. Þar sagði drengurinn sína sögu ásamt því að nú yrði fjölskylda hans tekin af honum þar sem móðir hans vildi ekki láta hann verða vitni að þessu ofbeldi meir. Hann bað fjölskyldu sinni griðar.
Hvert var svarið?
Hvernig sannar foreldri andlegt og líkamlegt (eða annaðhvort) ofbeldi fyrir dómstólum? Þetta er oft mesta og stærsta leyndarmálið. Haldið leyndu uns allt fer úr böndum. Fæstir kæra maka sinn eða láta taka af sér skýrslu. Dómstólar viðurkenna ekki sjúkdóminn alkóhólista/fíkil og/eða meðvirkni. Þó vita allir hversu andlega skemmandi þessi sjúkdómur er og hve alvarlegur. Stjórnleysið og stjórnsemin. Einmitt það sem sendir börnin okkar skemmd jafnvel ævilangt út í lífið.
Á sama tíma og við lesum þessar sögur er barnaheill að berjast fyrir börnum sem þurfa að búa við hvers konar ofbeldi á heimilum. Hjá barnaverndarstofnunum má sjá bæklinga þess efnis að ofbeldi sé ekki liðið.
Hver ætlar þá að hindra það og hvernig? Dómstólar gera það ekki - til þess eru lögin of þröng. Sjónarmið ungra barna er ekki virt - ákvarðanir eru teknar fyrir þau. Ekki er hlustað á eldri börnin - það gæti einhver verið að hafa áhrif á frásögn þeirra.
En þegar upp er staðið. Hver fer í forsjármál? Eru það foreldrarnir (þá báðir) sem geta sett sig í spor barnanna og virt þeirra þarfir? Unnið saman að farsælu uppeldi?
Nei. Það er eitthvað að. Annars væru fullorðnir einstaklingar ekki að ganga í gegnum það ómannúðlega ferli sem forsjárdeila er. Það hlýtur í flestum tilfellum eitthvað að vera að í þessum tilfellum. Eitthvað sem ekki er hægt að sanna á það afgerandi hátt að dómstólar taki mark á því. Eitthvað sem mögulega væri hægt að sjá ef allar vísbendingar væru teknar góðar og gildar. Eitthvað sem hægt væri að forða börnunum frá ef það væri ekki tekið sem víst að þeirra frásögn væri "misvísandi".
Okkur er sagt að hlusta á börnin okkar - en þegar upp er staðið, þá gerir það enginn sem hefur raunverulegt vald til að koma þeim til hjálpar.
Hér þarf að skera upp herör - því enginn utanaðkomandi þekkir raunverulegu söguna.
Börn hafa rétt á báðum foreldrum - eiga að hafa ást beggja foreldra. En ef upp kemur deila af þessu tagi, þá er bara eitt - og einungis eitt - sem dómstólar gætu gert með réttu.
Krefja annan eða báða einstaklingana um að sækja sér utanaðkomandi aðstoð sérfræðinga til lengri tíma - minnst tveggja ára. Þannig gætu dómstólar virkilega hjálpað börnunum og stuðlað að öryggi barnanna með heilbrigðum foreldrum. Báðum foreldrum.
Meðan það er ekki gert og ekki tekið mark á vísbendingum - þá má vel búast við að börnin sé send í hættuástand - eða í aðstæður sem erum þeim ekki til góða. Auðvitað er þetta ekki algilt og á ekki við í öllum tilfellum. En hvernig er hægt að dæma um það á svona þröngum forsendum?
Gerum markmið Barnastofu raunverulegt - tökum á vandanum.
Gert að afhenda börn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 8.3.2011 kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.3.2011 | 10:23
Semsagt betra að láta fólk svelta en að byrja einhversstaðar?
Það er alveg kostulegt að fólk geti viðurkennt neyðina en í raun sagt á sama tíma að það sé ekkert hægt að athafast. Á þeim grundvelli að ein aðgerð sé ekki nóg!
Er þá betra að gera ekki neitt og láta neyðina aukast? Ég er eiginlega hálf sjokkeruð yfir þessum orðum velferðarráðherra. Framsetning neysluviðmiða og það að hann virtist sýna málinu grundvallar skilning blés fólki örlitla von í brjóst. Á nú að taka þessa von á þeim grundvelli að hækkun bóta sé ekki nóg?
Vissulega er hún ekki nóg, en gæti þó þýtt að fólk gæti borðað viku lengur í hverjum mánuði. Gæti þýtt að börnin þyrftu ekki að svelta. Ég hef fulla trú á að hver og einn sem stendur frammi fyrir þeim afarkostum að brauðfæða fjölskylduna eða fara með bílinn í viðgerð mun velja hið fyrrnefnda.
Ég vil því biðja velferðarráðherra að byrja á að hækka grunnlífeyrir sem allir vita að er of lágur og velta síðan fyrir sér lausn annarra mála.
Það verður að byrja einhversstaðar!
Þetta ástand er ekki þjóð eða ráðherra sæmandi!
Ekki nóg að hækka bæturnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)