Þarfir hvers einstaklings eru meðfæddar. Meðal grunnþarfa mannsins eru: Vatn, matur, húsnæði og svefn. Án þess að þessum frumþörfum sé fullnægt komast einstaklingar ekki í næsta þrep sem er öryggi. Sálarlíf þeirra sem ekki geta fullnægt frumþörfum sínum (og barna sinna) getur ekki verið gott. Öryggisleysi og ótti skapar vítahring sem ekki er hægt að eyða þegar von um að geta sinnt frumþörfum er tekin af fólki.
Ríkisstjórnin hikar samt ekki við að fremja þessi mannréttindarbrot á Íslenskum einstaklingum. Við skulum líta á 25. grein mannréttindasáttmálans:
Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert. 2. Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, hvort sem þau eru fædd innan eða utan hjónabands, skulu njóta sömu félagslegu verndar.
Þarna er t.d. bein tilvísun í grunnþarfirnar.
Lítum svo á 10. greinina. Hún er áhugaverð fyrir þær sakir að Alþingi hefur beinlínis sett lög (151/2010) sem aðstoðar banka og kröfuhafa til að ganga að eigum fólks sem ekki getur í núverandi samfélagi staðið undir þeim álögum.
Allir skulu jafnir fyrir dómstólum og njóta réttlátrar, opinberrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómi, þegar skorið er úr um réttindi þeirra og skyldur eða sök sem þeir eru bornir um refsivert brot.
Í stuttu máli, það er búið að svipta einstaklinga möguleika til bera hönd fyrir höfuð sér ofan á allt annað, þar sem kröfuhafar og auðvaldið eru greinilega rétthærri í okkar réttarkerfi en almenningur.
Það er í raun óþarfi að fara ofar í þarfapýramídann í þessari grein, burtséð frá því að einstaklingar fullir af sjálfstrausti og öryggi (fjórða þrep) munu væntanlega nýtast þjóðfélaginu mun betur og auka framleiðni og hagvöxt. En þar sem fjölmargir einstaklingar og jafnvel heilu fjölskyldurnar eru staðsett núna í boði velferðarríkisstjórnarinnar bíður þeirra lítið annað en meiri örvænting. Jafnvel andleg og sálræn veikindi mögulega lífshætta.