Færsluflokkur: Bloggar

Hef mikið dálæti á Evu Joly

Það er notalegt að lesa orð Evu Joly þar sem hún á rökréttan hátt skorar á Íslendinga, þessa litlu þjóð, að spyrna fótum við ægivaldi fjármálafyrirtækja og þeirri tilhneigingu þeirra að láta almenning borga fyrir mistök sín.

Ég verð að viðurkenna, að þrátt fyrir allar þær hörmungar sem hér hafa dunið yfir litla þjóð, þá er ég stolt að einmitt litla þjóðin okkar er í þeirra aðstöðu að spyrna við fótum og segja: Hingað og ekki lengra!

Það er ekkert réttlæti fólgið í því að varpa ofurskuldum bankakerfa á almenning sem mega um sárt binda fyrir vikið - jafnvel í mörg ár. Þetta er í raun algert hneyksli ef maður lítur á það frá þessu sjónarhorni.

Bankamenn þenja út kerfið með alls kyns gjaldeyrissamningum, afleiðusamningum, skort stöðum, skuldabréfabralli og áfram má telja. Á endanum hlýtur svo bólan að springa og þá finnst öllum alveg sjálfsagt mál að láta almenning borga brúsann. Hirða húsin þeirra. Heimta 110% veðsetningu, breyta lögum í þágu fjármálafyrirtækja - hvað sem er.

Þegar maður horfir á þetta þá getur maður ekki annað en hrisst hausinn. Þvílík endemis vitleysa að leyfa fjármálafyrirtækjum að ganga svona í frammi. Bara til þess að þeir ríku geti orðið ríkari.

Jóakim önd hefur fjölfaldast í heiminum á met tíma og lætur sér fátt finnast um Andrés önd, hvað þá Rip, Rap og Rup. Breytingin er að hann hefur ráðið Bjarnarbófana í vinnu til sín til að stjórna bönkunum - vitandi að þeir svífast einskis.

Vitiði - þetta er alveg komið gott hjá þessum fjármálafyrirtækjum. Það er alveg kominn tími til að þau fari að haga sér í samræmi við hagkerfin í löndunum og vanda vinnuna sína. Þurfi að taka ábyrgð og taka sjálf á sig sína skelli. Mögulega mundi þá áhættusæknin minnka til samræmis.

Ég vona að þjóðin verði okkur til sóma á morgun og segi nei við svona kúgunum á almenning víðs vegar um heim.


mbl.is Berjist gegn óréttlætinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármagnseigendur og hagsmunaaðilar þeirra kunna ekki að skammast sín!

Hverjum finnst það skrýtið að samtök fjármálafyrirtækja (SFF) dæli fé í auglýsingar til styrktar þess að samningar um Icesave verði samþykktir?

Engum sem hugsar rökrétt. Það þýðir nefninlega að fjármálafyrirtækin geta haldið áfram sínu sukki á kostnað ríkissins. Þurfa ekki að taka neina ábyrgð sjálfir.

Þetta er svolítið eins og verðbólgan virkar. Fjármálafyrirtækin geta ekki tapað vegna verðbólgu. Þess vegna þurfa þau ekki að gæta hagsmuna efnahagskerfisins. Skítt þó svo það fari á hliðina. Verðtryggingin og ríkið passar uppá okkur - við getum ekki tapað.

Þetta er afleitasta og úrkynjaðasta fjármálakerfi sem sögur fara af. Ríkisvaldið dansar kringum auðvaldið - sem ekki getur tapað þar sem það er búið að koma allri ábyrgð yfir á aðra.

Auðvitað hafa þeir svo efni á því að auglýsa sinn málstað - almenningur borgar, ekki satt.

Virðingarfyllst,

með von um að þjóðin opni augun. Endilega segið já - og hjálpið eymingjas fjármálafyrirtækjunum að sukka án ábyrgðar.


mbl.is Bankar styrkja Áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lee Buchheit á launaskrá hjá ríkisstjórninni.

Margir hafa velt því fyrir sér á hvaða forsendum Lee Buchheit talar um ágæti samningsins. Sú forsenda er augljós. Tæpar 300 milljón króna forsendur - takk pent.

Fyrir þessa peninga hefði verið hægt að aðstoða almenning sem sér fram á mikla neyð. Hækka bætur sem eru svo lagt frá því að vera í takti við neysluviðmið. Auka heilbrigðisþjónustu á álagssviðum t.d. geðdeildirnar.

Það er skýrt að orð Buchheits eru ómarktæk með öllu þegar kemur að þessum samningum. Manninum er borgað vel fyrir hvert einasta orð.

Er ég ein um að finnast skömm að þessu?


mbl.is Kostaði yfir 300 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar eru merkilegt fyrirbæri - en siðferðið er ekki mikið

Þegar bankar á  Mön og Guernsey urðu gjaldþrota fyrir um 10 árum neituðu Bretar ábyrgð á að bæta sjóðsfélögum þar inneignir sínar.

Svona fjallar Ögmundur um þessi mál á heimasíðu sinni:

"Eitt mál ber hátt í Bretlandi um þessar mundir en það er barátta hundruða þúsunda eftirlaunaþega, sem hafa tapað sparifé sínu úr eftirlaunasjóðum, sem áttu að vera tryggðir af breska ríkinu. Frægasti sjóðurinn er Equitable Life (með eina og hálfa milljón félaga) sem varð nánast gjaldþrota fyrir um tíu árum síðan og hefur síðan verið í umsjón ríkisins. Þann 21. febrúar 2007 var kveðinn upp dómur í London um það að ríkinu bæri að bæta sjóðfélögum tjón vegna skorts á eftirliti yfirvalda annars vegar og hins vegar vegna þess að yfirvöld höfðu gefið það út að ríkið ábyrgðist sjóðinn. Breska ríkið taldi að sú yfirlýsing hefði verið misskilin af sjóðfélögum."

http://ogmundur.is/annad/nr/4684/

Evrópski dómstóllinn úrskurðaði sem svo að Bretar væru að ganga í berhögg við Evróputilskipanir, en Bretar ákváðu að hlýða ekki þeim úrskurði. Ekki heldur úrskurði Mannréttindadómsstólsins í kjölfarið. Enn er þetta mál óleyst.

En á sama tíma ganga Bretar hart að Íslenska ríkinu að viðurkenna ríkisábyrgð á Tryggingarinnistæðusjóði. Án dóms og laga. Á meðan þeir sjálfir harðneyta að bera slíka ábyrgð sjálfir.

http://www.emag.org.uk/

Okkar réttur hlýtur að vera sá að fá úr því skorið hver réttarstaða ríkis, sem þurfti að horfa fram á alsherjar bankahrun, er í málum sem tengjast ríkisábyrgð á einkabönkum. Þjóð okkar stendur ekki undir þessum ofurálögum. Heimilin og almenningur mun sogast niður í gífurlega neyð sem mun fylgja aukinni skattheimtu, álögum og niðurskurði. Þó er ekki útséð með að ríkið geti staðið undir þessari miklu skuldsetningu og síðan aukinni skuldsetningu. Væntanlega þarf ríkið að taka lán fyrir vaxtagreiðslum og ekki má gleyma að önnur lán, t.d. barnalánið svokallaða er á gjalddaga 2016.

Svo ég vitni nú í greinina þá eru þessi orð Hudsons lýsandi fyrir það sem við getum séð fyrir okkur hér: "Íslendingar hafa fyrir framan sig nokkur góð dæmi um það hvað getur gerst þegar hagsmunir fjármagnseigenda og banka eru teknir fram yfir hagsmuni almennings. Í Grikklandi, Portúgal og í Bretlandi hafa hundruð þúsunda mótmælt því að í kreppunni eigi almenningur einn að borga brúsann, bæði í formi hærri skatta og minni opinberrar þjónustu. Írland, sem ábyrgðist allar skuldbindingar sinna banka, sér nú fram á áratuga langt tímabil stöðnunar eða efnahagslegs samdráttar með tilheyrandi miklu atvinnuleysi. "

Búferlaflutningar frá Íslandi eru í sögulegum hæðum og hvatinn til að þrauka þorrann hérlendis fer æ minnkandi. Almenningur einfaldlega getur ekki staðið undir þessu.

Róttækari aðgerða er þörf - og það strax.

Það er vel þess virði að lesa vel þessa grein Hudsons sem hefur eytt miklum tíma í að skoða fjármálakerfi heimsins og hvernig þau eru ekki að virka með skilvirkum hætti.

 Fjármálakerfin þarf að endurskoða.


mbl.is Skuld sem ekki er hægt að borga verður aldrei borguð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland - stórasta land í heimi!

Það er fagnaðarefni að sjá að hér býr þjóð sem ann landi sínu og hefur ekki áhuga á að láta erlendar stórþjóðir kúga sig til "hlýðni". Né heldur stjórnvöld eða samtök innan atvinnulífsins sem segja beint út "engir samningar - engar launahækkanir".

Þetta er hneysa. Okkur er hótað fram og til baka. Við - almenningur - erum eins og litlir óþekkir krakkar í augum elítunnar. Skipað að samþykkja þetta, borga hitt og þegja svo.

Í hvernig þjóðfélagi bý ég (aulahrollur).

Mörg rök hef ég lagt fram fyrir minni skoðun og eflaust misjafnt hvernig fólk tekur þeim. Hér eru hinsvegar ein enn.

Við bárum alls ekki ein ábyrgð á þessum Icesave skuldum sem okkur ber að ríkisvæða - þessar einkastofnanir voru með tryggingu - eins og sjá má ef linkurinn hér að neðan er skoðaður.

Hins vegar hef ég aldrei orðið vör við neina sérstaka umræðu vegna þessa.

http://www.fscs.org.uk/what-we-cover/products/investments/eea-top-ups/

Auðvitað metur síðan hver fyrir sig.

En persónulega finnst mér þetta gráupplagt dómsmál. Efast hinsvegar um að Bretar hafi nokkurn hug á því.

Mögulega verður málinu á endanum sópað undir teppi - hver veit. Kemur í ljós ef við látum ekki traðka á okkur.


mbl.is 57% ætla að segja nei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. kallaði Icesave samningaleiðina áður "uppgjöf, ósigur, tap"

Hafi einhver vellt fyrir sér siðspillingu og undirlægjuhætti forsvarsmanna Icesave samninganna og ráðamanna, þá er gráupplagt að rifja upp orð Steingríms J. í þessari grein sem birtist í morgunblaðinu 12. des. 2008. Þar segir hann m.a.

„Þegar ákveðið var að sækja um lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum varaði undirritaður strax sterklega við að í þeirri ákvörðun og því ferli sem Ísland lenti þar inn í gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fælist jafnframt baneitruð tenging yfir í hina óleystu deilu um Icesave-reikningana. Þessu var í fyrstu neitað og sagt að ekki kæmi til greina að láta kúga okkur til uppgjafar í því deilumáli til þess eins að geta leitað á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Allt var þetta síðan gefið eftir af ríkisstjórninni. Það sem menn hafa í þessu sambandi kallað „lausn“ er í raun ekkert annað en uppgjöf, ósigur, tap,“ segir Steingrímur í áliti sínu sem lagt var fram fyrr í dag. "

Einnig var Steingrímur mjög ósáttur við að þáverandi ríkisstjórn þvertæki fyrir að fara dómsstólaleiðina.

"Vísar Steingrímur í fyrri yfirlýsingar ráðherra í ríkisstjórninni að ekki kæmi til greina að láta kúga Íslendinga til uppgjafar í Icesave-deilunni. Rætt hefði verið um lagalegan ágreining sem Ísland ætti skýlausan rétt á að láta á reyna eftir lögformlegum leiðum fyrir gerðardómi eða dómstóli."

Það er alveg með ólíkindum að í dag þverbrýtur Steingrímur á þessum orðum sínum sem þó hafa átt sterkan þátt í kosningu hans til núverandi ríkisstjórnar, ásamt skýrri afstöðu gegn inngöngu í ESB. Núna er Alþjóðagjaleyrissjóði velkomið að vera hér í hlutverki rukkara kröfuhafanna og samningar um Icesave eru nú hans eigin gjörningur.

Það er með ólíkindum að menn sem ganga svona í þverbak við orð gagnvart kjósendum sínum skuli leyfa sér að sitja í ríkisstjórn.


mbl.is Vill ekki sjá Icesave-ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttast niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu

Nákvæmlega þetta hefur verið frekar augljóst undanfarin tvö ár og margir hamrað á þeirri staðreynd, að ef Bretar og Hollendingar sæu hag sinn í dómsstólaleiðinni - þá væru þeir löngu farnir í mál.

Það mundi hins vegar henta þeim afskaplega illa. Það mundi kosta þá mun meira en okkur að slíkt dómsmál mundi tapast. Þá þyrftu nefninlega öll ríki að ábyrgjast innistæðutryggingar. Ríki sem eru ekkert vel stödd, líkt og bretar sjálfir.

Hvað varðar tenginguna við ESB, sem enginn getur neitað - þá er varhugavert að fara í það ferli með fjármálastöðuna eins og hún er í dag. Ef þau mál þróast á jákvæðan hátt þá er Icesave málið engin fyrirstaða. Aðildaríki munu eftir sem áður ásælast auðlindir okkar - hvað svo sem við kjósum á laugardaginn.

Þessi mál eru það stór í sniðum að eðlilegast er að fara með þau rétta leið.

Við höfum tækifæri til að vera fyrirmynd og standa föstum fótum á réttlæti okkar.


mbl.is Bretar og Hollendingar sagðir óttast dómstólaleiðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar með lokuð augu - nei, klemmd aftur.

Það ætti hver maður að sjá, að viðskiptalíf getur ekki þrifist við skilyrði þeirrar skattlagningar og þeirra gjaldeyrishafta sem hér ríkja.

Það ætti hver maður að vita, að samþykki Icesavesamninga kippir málunum síst í lag.

Hvernig ætti það að vera? Ekki má fella krónuna með því að losa um höftin þar sem samningarnir eru í pundum. Ríkið verður að draga enn frekar saman til að standa í skilum við síauknar skuldsetningar. Það verður gert í gegnum aukna skattheimtu (sem ekki skilar sér þar sem hún er komin yfir toppinn). Fyrirtækin verða undir og skapa ekki atvinnu. Heimilin svelta og geta ekki viðhafið eðlilega neyslu.

Þetta er ekkert afskaplega flókið.

Það er val um fjármálafyrirtækin og kröfuhafana (alla - ekki bara Icesave) eða róttækar aðgerðir fyrir þjóðina. Róttækar aðgerðir eru hinsvegar ekki vel liðnar í pólitík þar sem alltaf er verið að sækjast eftir einhverju sem kemur hinum pólitíska einstakling vel. Hinum pólitíska einstakling kemur ekki vel að vinna gegn fjármagnseigendum - en það er því miður sú staða sem við erum í núna.

Ef bjarga á almenning og þjóðinni verða stjórnvöld að vinna gegn fjármagnseigendum.

Þora þau því?

 


mbl.is Segir ríkisstjórnina standa atvinnulífinu fyrir þrifum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samningar fella ekki neyðarlögin - og þau fjalla ekki bara um Icesave!

http://www.althingi.is/altext/139/s/1232.html

139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1232  —  591. mál.

Fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar um ríkisábyrgð til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf.

    1.      Hvernig stendur á veitingu ríkisábyrgðar til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf., sem er sprottin af samningi sem Nýja Kaupþing banki og Drómi undirrituðu 22. júní 2009 um endurgreiðslu skuldar og veðsamninga vegna skuldbindinga í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, en í bréfi ráðuneytisins til Nýja Kaupþings banka, dagsettu 20. ágúst 2009, kemur fram að ríkissjóður ber fjárhagslega ábyrgð gagnvart bankanum ef greiðslufall verður af umræddu skuldabréfi, sem er að fjárhæð 96,7 milljarðar kr.?

    Þáverandi ríkisstjórn gaf haustið 2008 yfirlýsingu um að innstæður í bönkum væru tryggðar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Núverandi ríkisstjórn hefur gefið sambærilega yfirlýsingu. Þegar stjórn Spron óskaði eftir því við FME að það tæki yfir rekstur sparisjóðsins á grundvelli neyðarlaganna tók stjórn FME þá ákvörðun varðandi innstæður Spron að leita eftir því við Arion banka að bankinn tæki við innstæðum Spron í því skyni að tryggja aðgang innstæðueigenda að fjármunum sínum. Á móti gaf slitastjórn Spron út skuldabréf sem tryggt var með veði í eignum þrotabúsins sem endurgjald fyrir skuldbindingarnar. Ákvörðun FME um flutning innstæðna var formgerð með þeim hætti að slitastjórn Spron gaf út skuldabréf á Arion banka fyrir hinum yfirfærðu innstæðum að fjárhæð 96,7 milljarðar kr. eða nettó að fjárhæð 89 milljarðar kr. þegar tekið er tillit til þess yfirdráttar sem jafnframt var fluttur yfir. Til tryggingar skuldinni eru eignir þrotabúsins og er veðhlutfallið talið vera um 140% samkvæmt síðasta mati. Nú er unnið að nýju mati á verðmæti eignanna sem birt verður á kröfuhafafundi 14. apríl nk. Rétt er að geta þess að skuldin nemur nú um 70 milljörðum kr. Þessir gjörningar eru þannig milli tveggja lögaðila og færast því ekki í bækur ríkissjóðs. Á grundvelli ákvörðunar FME um að færa innstæður Spron til Arion banka gerði bankinn hins vegar þær kröfur til ríkissjóðs að hann staðfesti ábyrgð ríkisins á þessum innstæðum, eins og á öðrum innstæðum í íslenskum bönkum, ef svo færi að verðmæti veðsettra eigna stæði ekki undir þeim skuldbindingum.

    2.      Hvers vegna er þessi skuldbinding ekki tilgreind í ríkisreikningi fyrir árið 2009?

 
    Þar sem ríkissjóður lýsti yfir því með almennri yfirlýsingu að hann ábyrgðist allar innstæður í íslenskum bönkum, og þar með talið þessar, var það álitamál hvort sérstaklega skyldi tiltaka ábyrgð á þessum innstæðum í skýringum með ríkisreikningi en ekki ábyrgð á öðrum innstæðum. Á vegum ríkisreikningsnefndar er verið að fara með heilstæðum hætti yfir hvernig gerð verði grein fyrir ábyrgðarskuldbindingum í ríkisreikningi.

    3.      Á hvaða heimildum byggist ábyrgðarveiting ríkissjóðs? 


    Framangreindir gerningar voru gerðir á grundvelli neyðarlaganna.

    4.      Var innheimt ábyrgðargjald samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir?
    Sjá svar við 1. tölul.

    5.      Hvert er áhættumat ráðuneytisins á því að ábyrgðin falli á ríkissjóð að hluta eða í heild? Um hvaða fjárhæðir er að ræða og á hvaða tímapunktum kunna þær að falla til?
    Sjá svar við 1. tölul.

Tekið beint af vef alþingis, en feitletranir eru mínar. Neyðarlögin hafa þegar gert upp þessi mál og ekki bara hvað varðar Icesave. Það sem við þurfum að fá frá dómi er "halda neyðarlögin á svona stundu tekið mið af aðstæðum".

Bankarnir eru í eigu kröfuhafa - ef þeir fá óhindrað að soga til sín íslensk heimili og fyrirtæki (ásamt auðlindum með samningum), þá á þjóðin lítið eftir.

Íslenska þjóðin þarf að standa saman og verja hagsmuni sína, taka réttar og róttækar ákvarðanir á eigin forsendum.


mbl.is Úrskurðir styrkja forsendur Icesave-samninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er framtíðin sem skiptir okkur máli!

Það er einungis eitt atriði sem við getum gert við fortíðinni og hluti sem þegar hafa gerst:

LÆRT AF ÞEIM!

Nú er það framtíðin sem skiptir máli. Framtíðin felst ekki í því að samþykkja Icesave samningana. Þeir koma ekki til með að setja hagkerfið hér í gang.

Framtíðin felst í því að taka réttar og róttækar ákvarðanir. Ekki pólitískar ákvarðanir sem henta öðrum ríkjum, stórveldum, nýlendurisum.....

Ávarðanir sem henta okkur - Íslendingum.

Þegar þjóð fer í gjaldþrot kemur AGS til að ná því sem hægt er fyrir kröfuhafa. Þeir eru ekki hér okkur til hjálpar.

Bankarnir eru ekki okkar bankar - bankarnir eru í eigu kröfuhafa.

Það sem er verst að með lögum 151/2010 gáfu stjórnvöld bönkunum heimild til að uppreikna og útfæra skuldir heimilanna á sinn hátt. Það má ekki gerast. Heimilin lenda þá í höndum kröfuhafa.

Heimilin í landinu eru uppistaða hagkerfisins - þjóðarinnar. Þau, ásamt þeim auðlindum sem við erum svo rík af. Þetta megum við ekki láta af hendi án þess að verjast og berjast.

Tökum róttækar ákvarðanir, neitum að selja okkur í hendur erlendra kröfuhafa. Neitum að gefa frá okkur auðlindirnar. Hættum að trúa því að ESB komi til með að bjarga okkur.

Skoðum möguleika nýs fjármálakerfis, nýrrar myntar. Förum allar þær leiðir sem við getum til að bjarga undirstöðum hagkerfisins - heimilunum okkar, fyrirtækjunum okkar, mannauðnum og ekki síst auðlindunum.

Notum þá menntun sem við höfum til að rísa upp sem þjóð.


mbl.is Ekki auðvelt að komast að niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband