Færsluflokkur: Bloggar

Það á að kæra alla banka fyrir þjófnað!

Meðan þúsundir svelta, hundruðir missa heimili sín og yfir tugþúsund eru atvinnulausir - sitja bankarnir og reikna. Reikna og græða. Reikna á fölskum forsendum, lán sem eru dæmd ólögleg. Samkvæmt lögum sem í raun eru líka ólögleg þar sem þau samræmast ekki öðrum lögum. Lög má ekki setja aftur í tímann. Humm.

Auðvitað er þetta ekkert annað en þjófnaður. Forsendubrestur sá sem hér kom upp er hundsaður og fjármögnunarfyrirtækin fá að ganga í vasa fólks líkt og ótýndir þjófar að nóttu - og komast upp með það. Stjórnvöld styðja nefninlega fjármagnið fremur en fólkið. Oliver Twist var flott persóna - en halló, ekki í bankaútgáfu.

Á Íslandi eru hva - 320 þús hræður eftir (þeir sem gátu hafa flúið land) og af þessum hræðum róa að minnsta kosti 5% í vellystingarspiki. Hafa fæðst með silfurskeið í munni (t.d. beint inní stjórnmálaflokk) eða verið afar ástsælir ótýndir þjófar - á kostnað annarra. Slatti af efri millistétt er ekki að hafa hátt um sín mál. Sitja í góðum stöðum og fá sitt sem endranær.

Þorri stjórnmálamanna (þessir í eldri aldurskanntinum) og þeirra vinir á sama aldri í áhrifastöðum, úthrópa verðtrygginguna sem nauðsyn til að viðhalda tikkandi innkomu í lífeyrissjóði þeirra. Þeir vilja nefninlega fá að láta seinni kynslóðir borga sína ellidaga. Rétt eins og seinni kynslóðir greiða fyrir óskuldsettu eignirnar þar sem lánin "brunnu upp" í verðbólgu fyrrum áður en verðtryggingin kom til.

Það fyrsta sem kennarinn minn í viðskiptafræði á sínum tíma sagði við okkur heimsku nemendurna var "þakka ykkur kærlega fyrir að borga námslánin mín og húsnæði foreldra minna". Verðtrygging á höfuðstól og ákveðnar skuldir í reikningsskilum eru ekki lengur reiknaðar þó svo við munum læra um það í þessum áfanga. Síðar verður því sleppt þar sem nú á að halda verðbólgu innan verðbólgumarkmiða og lög um ársreikninga hafa breyst að sama skapi. Við lærðum þá strax að verðtrygging færir auðmagn úr einum vasa í annan. Fjármagnið fer til þeirra sem eiga mest. Svona öfugt Hróa Hattar dæmi.

Þetta var árið 2002.

Ég á ennþá glósur um hvernig reikningshald var þegar verðbólga var tekin inn í reikningsskil - vill einhver eintak?

Nú - ekki. Nei auðvitað. Bestu fyrirtækin fá bara að afskrifa. Já, og bankarnir auðvitað...........

Svo ég segi nú eins og einhver sagði í áramótaskaupi 2010.

"Það er eitthvað svooooo rangt við þetta"


mbl.is Kærir Landsbanka fyrir þjófnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðjudagshugvekja

Áður en hugvekjan hefst vil ég minna á að allar aðhalds- og sparnaðaraðgerðir ríkisstjórnar, sem eru nauðsynlegar til að eiga möguleika á inngöngu í ESB - koma hart niður á almenningi.

Sjálf er ég rík manneskja, á þrjú yndisleg börn. Peningalegur auður hefur hinsvegar aldrei verið mikill þó svo ég hafi haft tök á að sjá fyrir mér og mínum. Í dag er það erfitt og þarfnast baráttu og útsjónarsemi vegna aðhaldsaðgerða ríkisins.

Eitt af því sem mér er ljúft að gera er að vera sjálfboðaliði fyrir Fjölskylduhjálp Íslands. Það skal enginn halda það að ég sé á nokkurn hátt yfir þá hafin sem leita þar aðstoðar. Engan vegin. Enda hefur þörfin margfaldast á síðustu þrem árum. Líka hjá öðrum hjálparstofnunum sem allar vinna gott og þarft starf.

Hvers vegna?

Jú - úrræði velferðarstjórnarinnar lúta að lífeyrissjóðum, ekki almenning. Það er velferðin.

Þegar ég sat í kvöld og hringdi út til að fá stuðning hjá hinum almenna borgara fyrir þá sem mega sín minna í því tíðarfari sem er í dag, kom upp spurning í huga mér. Hvernig líður fólki almennt?

Í mínum störfum, sem eru fleiri en eitt og öll í þágu mannréttinda og réttlætis, sér maður og heyrir ýmislegt.

"Nei - því miður get ég ekki styrkt fátæka núna þó ég gjarnan vildi, í morgun missti ég húsið mitt".

"Við hjónin erum bæði atvinnulaus og ég fæ ekkert frá Vinnumálastofnun vegna einhverra reglna í þrjá mánuði".

"Ég veit ekki hvað ég á að gera, örorkulífeyririnn minn dugir alls ekki fyrir nauðsynjum - enn þakka ykkur gott starf".

Svona gæti ég haldið áfram endalaust. Allstaðar er manni þakkað fyrir vel unnið verk. 

Stundum velti ég fyrir mér. Hversu margir vita ekki hvar þeir muni verða um jólin, eða þau næstu? Þó svo þeir hafi átt heimili og þokkalegt líf til margra ára. Hversu margir?

Þeir sem eru ekki í þessum hópi eiga vissulega erfitt með að skilja þá angist sem kvelur þann sem er í þessum sporum. Líkt og ég sjálf á erfitt með að skilja fólkið í stríðshrjáðu löndunum af því ég hef ekki kynst því sjálf.

Jólin nálgast. Hátíð ljóss og friðar. Hjálpumst öll að hér heima til að geta veitt öllum gleði um jólin. Yfir 2500 börn eru á framfæri þeirra sem þurfa aðstoð. Hjálpum þeim.

Að lokum. Megi almenningur vakna til vitundar um, að ríkisstjórnin vinnur ekki fyrir almenning heldur auðvaldið. Það er orðið greinilegt. En þeir sem eru enn í góðum málum hugsa sennilega ekki mikið um það. Þekkja ekki vandann. Hjá þeim er allt í lagi.

Hvernig liði þér ef þú vissir ekki hvar þú ættir að halla höfði um jólin? Með börnin þín?

Það væri ekki góð tilhugsun.

Fyrir sum okkar er það ekki tilhugsun heldur staðreynd. 

Spáðu í það.


mbl.is Ræddu efnahagserfiðleikana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameinumst hjálpum þeim, sem minna mega sín.........

375680_2622437847305_1445981767_33016552_786307067_n_1.jpgHjálp í neyð, söfnum fyrir matvælum til að létta undir með efnalitlum heimilum landsins fyrir komandi jólahátíð og næstu misserin.

Nei - Landsbankinn má eiga sinn hagnað, en ef sómi væri af honum - gæfi hann til söfnunar Fjölskylduhjálpar Íslands sem hófst í dag þann 3ja nóvember.

Afhverju?

2500 börn búa hjá foreldrum sem neyðast reglulega til leita eftir mataraðstoð til samtakanna sem úthlutuðu  24000 matarúthlutunum s.l. tólf mánuði samkvæmt skýrslu sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir samtökin.

Borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr og Páll Óskar tónlistarmaður hringdu fyrstu símtölin fyrir Fjölskylduhjálpina í dag. Fréttatilkynning var send til allra fjölmiðla, en hvorki RÚV né Stöð 2 lét sjá sig á svæðinu. Morgunblaðið var með ljósmyndara til taks ásamt DV. Fleiri voru það nú ekki.

Maður spyr - er þetta þöggun?

Hvað sem málið er, þá er þetta samt staðreynd.

Borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, á heiður skilið fyrir að mæta og veita verkefninu áhuga. Enda er Reykjavík eina "bæjarfélagið" sem styrkir Fjölskylduhjálp Íslands. Önnur nágrannasveitafélög hafa ekki styrkt þetta verkefni þó svo skjólstæðingar komi úr öllum sveitarfélögum.

Páll Óskar á líka heiður skilið fyrir að bregðast skjótt við og sýna verkefninu verulegan áhuga.

Von mín er sú að fleiri taki þessa heiðursmenn sér til fyrirmyndar.

 


mbl.is Hagnaður Landsbankans 27 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað nákvæmlega segir þessi frétt okkur?

Hún segir mér allavega ekki neitt. Voru þetta nauðungarsölur? Voru það bankarnir sem keyptu þessar íbúðir? Eða voru þetta venjuleg markaðsviðskipti?

Þurfti fólkið að selja íbúðirnar sínar eða vildi það gera það?

Er þetta frétt til að blása einhverri von í huga einhverra? Hverra þá?

Hvaðan koma heimildirnar? Eru það bara þinglýsingarskjölin?

Mikið væri það nú ágætt að fá fréttir sem virkilega segðu manni eitthvað...........


mbl.is Fasteignir seldar fyrir 2,2 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setur þjóð á vonarvöl vegna eigin þráhyggju.

Ef einhver hefur haft tök á því að standa við loforð sem hún var kosin fyrir - Skjaldborg heimilanna - þá er það þessi kona. Jóhanna Sigurðardóttir, sem í setningarræðu sinni talar um græðgi sjálfstæðismanna og krefst ábyrgðar þeirra ásamt framsóknarmönnum.

Gott og vel. Það var þá. En hvað gerir hún og Samfylkingin til að leiðrétta þessi mál?

EKKERT.

Almenningur má rotna fyrir þráhyggju valdasjúkra einstaklinga á þingi sem sér bara eina leið. ESB. 

Almenningur má rotna fyrir valdasjúka einstaklinga, Steingrím, sem var ásamt sínum flokki, mótfallin ESB. Kosinn sem slíkur. Enn hann fékk loksins góðann ráðherrastól.

Viljum við svona valdasjúkt fólk til að fara með málefni þjóðarinnar? Fólk sem kann lítið annað en að vera diplómatar og stjórnmálamenn. Fólk sem hefur enga samsvörun við almenning?

Ef almenningur er þannig áttaður, þá segi ég eins og Geir Haarde.

Guð blessi Ísland.

 


mbl.is Mun klára aðildarviðræðurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir mótmæli kemur stríð

Ég veit ekki hvernig hægt er að segja þetta á varfærin hátt. En þetta segir sagan okkur. Þegar stjórnvöld / einræðisherra hefur gengið of langt og reiðin orðin óyfirstíganleg, þá brýst úr stríð.

Nákvæmlega þetta erum við að horfa uppá. Allstaðar í heiminum er uppreisn gegn banka- og stjórnmálamönnum. Ekki að ástæðulausu.

Fjármagn heimsins hefur safnast á fárra hendur víðast hvar í heiminum. Stjórnmálamenn halda að þessu ástandi sé hægt að stjórna á "góðan" veg fyrir auðmagnseigendur. Svo er ekki. Þeir ljúga sennilega hvað mest að sjálfum sér.

Þegar efnahagsreikningur banka í flestum ríkjum er orðin margfallt hærri en þjóðarframleiðsla þess lands með tilheyrandi vöxtum - er ekkert hægt að gera. Allavega ekki til að viðhalda því ástandi.

Eina leiðin til að greiða úr þessu er að koma jafnvægi þarna á milli. Til þess þarf að afskrifa eignir banka um allan heim. Ekki bara hér. Og endurskipuleggja fjármálakerfið.

ESB er engin lausn. Þar er nákvæmlega sami vandi á ferðum. Þó svo vextir séu lægri er samt ekki til fjármagn á meðal almennings til að borga þá. Þar er stærsta blöffið. Hagkerfin þar eru í sömu kyrrstöðu og hér.

Má bjóða ykkur annað og stærra bankahrun með sykri?

Það mun gerast ef ekkert verður að gert og stjórnvöld halda áfram á sömu  braut. Innan tveggja ára.

Við erum mun fleiri sem sjáum vandan en þeir sem stjórna því að ekkert sé gert.

Halló - vakna!



mbl.is Mótmælabúðir við dómkirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FELUM ÚRRÆÐI RÍKISSTJÓRNAR!

Nú skal laumast til að taka eignir landsmanna. Vandinn er orðinn of stór til að hægt sé að fela hann með fögrum orðum um úrlausnir og innantómum loforðum.

Íslandingar eru orðnir öskureiðir!

Fögur loforð um Skjaldborg Jóhönnu - lélegasti brandari Íslandssögunnar.

Hvar er Jóhanna? Í felum með lífvörðunum?

Svo nú á að hætta að "auglýsa" aðfarir gegn skuldurum. Nóg er almenningur reiður - óþarfi að gera hann enn reiðari......... gætu farið að gera eitthvað annað en að henda eggjum.

FRÁ UMBOÐSMANNI SKULDARA!

Greiðsluaðlögun - hið snjalla úrræði ríkisstjórnar. Kíkjum á.

Lögmaður umba:" Það hefur semsagt ekkert breyst - þú ert í raun ekki aflögufær"?

skuldari: "Nei - það eina sem hefur breyst er að allt hækkar. Matur, bensín og þjónusta".

Lögmaður umba: " Þá ertu í raun ekki hæfur í greiðsluaðlögun".

skuldari: " Það segir sig sjálft í atvinnuleysi og allt hækkar".

Lögmaður umba: " Bankarnir leigja íbúðir "eigenda" á markaðsverði - en þú ert ekki heldur aflögufær um að borga slíka leigu".

skuldari:  "Nei - þá gæti ég eins greitt af láninu".

Lögmaður umba:  "Já. Humm. Við verðum í sambandi bráðlega....... "

 

Og ríkisstjórnin situr enn og neitar leiðréttingu lána og ályktun um afnám verðtryggingar var felld á þingi.

http://visir.is/sgs-saettir-sig-ekki-vid-orettlaetid/article/2011111019379

Og landsmenn gera hvað?

 


mbl.is Breytt auglýsing uppboða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástarbréf til ríkisstjórnarinnar og bankanna.......

Elsku ríkisstjórn, bankar og önnur fjármögnunarfyrirtæki

Meðan bankarnir standa stútfullir af fé/eignum og hinn almenni borgari er blóðmjólkaður til hinsta dropa neitar ríkisstjórnin að leiðrétta stökkbreytt lán almennings. Þó svo Jóhanna lýsi því yfir að kanna eigi svigrúm bankanna þá segir það mér ekkert um neina leiðréttingu. Verðbólgan mallar. 

Elsku ríkisstjórn.

Ekki veit ég hverra hagsmuna þið gætið. Ekki okkar almennings, það er klárt.

Elsku bankar og önnur fjármögnunarfyrirtæki.

Persónulega gef ég fullkomið frat í ofvaxin lán sem þið kunnið að eiga. Endilega gangið að eignum mínum (fyrrum) bæði sem lántakanda og veðlánanda. Upprunalega lánið mitt, fyrir forsendubrest var alveg eitthvað sem ég gat tæklað. Í dag - nei. Veðið sem ég lánaði fyrri maka og ekkert er gert í að færa af eigninni, get ég ekki tæklað. Og haldiði að ég ætli að reyna það? 

Nei

Þið getið átt það sjálfir.

Elsku fjármögnunarfyrirtæki.

Haldið þið að ég muni koma til með að borga skuld af bíl sem á ekki einu sinni að vera skráður á mig? Löngu seldur í þokkabót? Glætan í þriðja veldi.

Það krúttlega við allar ofangreindar skuldir sem fæstar eru á mínu nafni en hanga á íbúð sem eitt sinn var mín, er að allar eru þær verðtryggðar. Þær lifa sínu eigin lífi í takt við getuleysi ríkisstjórnarinnar.

Elsku bankar og fjármögnunarfyrirtæki.

Miðað við stöðu skuldanna í dag þætti mér gaman að sjá ykkur rífast um litlu íbúðina sem á að halda þeim á floti. Og er amk tvöfallt minna virði en skuldin. Endilega setjið mig í gjaldþrot. En ekki ætla ég að borga fyrir það.

Það má alltaf dúndra enn einni eigninni á efnahagsreikninginn ykkar. Þar sem hún situr og gerir ekkert gagn. Ég vara ykkur við. Húsið þarfnast viðgerðar, gólfin eru hálf ónýt og rafmagnið á síðasta snúningi. Gamlar innréttingar - já gamalt hús. 

Ég er að hugsa um að snúa mér alfarið að því að njóta barnanna minna og hætta að hafa áhyggjur af því hvernig þið ráðstafið þessu lítilræði sem eitt sinn var mitt.

Þau eru mér nefninlega mun kærari. Líf mitt er mun meira virði en svo að ég ætli að dragnast með svona skuldir inn í framtíðina.

Ég gef skít í ykkur.

Ég á mér nefninlega líf.

Að lokum er hér mjög góð grein fyrir lántakendur. Megi bankarnir skjálfa fyrir mér.

http://www.heimilin.is/varnarthing/images/stories/med_greinum/dv_rad_til_lanthega.jpg

 


mbl.is Bankar neyddir til að þiggja aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna og þráhyggjan um ESB

Ég er farin að hallast að því - ekki síst eftir að hafa lesið þessa frétt, að Jóhanna Sigurðar sé með þráhyggju gagnvart ESB.

Allt á að verða fullkomið þegar við erum komin þangað. En til þess að geta það þurfa skuldir ríkissjóðs að fara ansi mikið niður. Sem þýðir að skattlagning mun verða búin að drepa bæði atvinnulíf og heimili löngu áður en slíkt getur gerst. Nú þegar sveltur fólk, fær mjög skerta mataraðstoð og atvinnulífið er lamað.

Við sem gætum svo auðveldlega reist úr kútnum ef skattarnir væru ekki svona stórauknir - beint inn í neysluna og beint inn í lán heimilanna. Hækkun skatta atvinnurekenda kemur í veg fyrir ráðningar á fólki. Neyslan er í lágmarki og verðtryggingin er verðbólguhvetjandi. Það er semsagt í raun allt ennþá á niðurleið.

Jóhanna vill kanna svigrúm til leiðréttinga fyrir heimilin. Er það 110% aðferðin taka tvö? Málið er nefninlega þannig að verðbólgan er búin að éta upp þessa leiðréttingu þessara heimila sem Jóhanna var svo ánægð með - lausnir ríkisstjónarinnar. Verðtryggingin át hana. Á mettíma.

Hér verður ekkert leiðrétt til betri vegar meðan verðtrygging blæs allt upp og neysluskattar eru auknir og þeim skellt þar með inn í verðtrygginguna. Það er eins og að lækna fótbrot með plástri. Gengur ekki upp. Þó svo það sé kannski það eina í stöðunni eftir að öll þjónusta við veika og fátæka er skorin burt.

Jóhanna virðist hafa eina framtíðarsýn og aðeins eina. ESB. Fyrir það má öllu fórna.

Nú spyr ég eins og asni, vegna þess að mér datt það ekki til hugar áður. Borgar ESB hlut í launum ríkisstarfsmanna? Nú þegar búið er að eyða síðustu úthlutun AGS - hver borgar þá launin þeirra?

Ég bara spyr. Hef ekki kynnt mér það, en finnst það áhugaverð pæling.

Það hlýtur að vera einhver feit og stór gulrót fyrir ríkisstjórn og auðmenn að sækja þetta svona fast.  Eða kannski bara vanþekking - því ekki reiknar Jóhanna dæmin sín sjálf.

Það er lítil fjármálakennsla í flugreyjunáminu - smá meiri stærðfræði í jarðfræðinni hans Steingríms, en engin fjármálakennsla.

Enda hafa þau sl. 20 plús ár eingöngu þurft að standa sig vel í Morfís keppnum - kjaftagangi. Verst að slík hæfni skilar engum raunverulegum árangri.

En gífurlegum völdum á réttum stað. Næg völd til að panta útreikninga sem "eiga" að sína fyrirfram ákveðna niðurstöðu. Það er nefninlega hægt að blekkja fólk gífrulega með tölfræði og hagræði. Enda eru þetta félagsvísindi - ekki raunvísindi. Með góðri þekkingu má líka föndra ótrúlegustu hluti með bókhald og ársyfirlit. Það krefst nefninlega sérfræðiþekkingar að geta lesið úr þessu öllu.

Þessir alþingismenn hafa lifað góðu lífi lengi vel á kjaftagangi - raunveruleg ákvarðanataka er ekki þeirra sterkasta hlið.

Þess vegna þarf að skipta þessu fólki út fyrir nýja aðila sem ekki eru hræddir við að láta verkin tala og vilja vinna fyrir almenning, ekki auðvaldið. Gera það sem þarf til að koma hér öllu í gang án þess að beygja sig undir innlend og erlend fjármálaöfl sem gagnast þeim sem eiga næga innistæðu nú þegar.

Bankarnir eru stútfullir af peningum sem rykfalla. Lífeyrissjóðirnir líka.

Og enginn gerir neitt til að koma hjólunum í gang.

Ég vil kosningar. Helst í gær. Koma þessu liði sem hangir á besta ríkisspenanum burt. Fá fólk með hugsjónir, siðferðið í lagi og hefur þá tilfinningagreind að hugsa líka um aðra en sjálfa sig. Fólk með alvöru menntun á réttum stöðum. Fólk með kjark og þor til að spyrna við fótum.

Og já - það er okkar að berja það í gegn.

 


mbl.is Virkjanakostir ekki óendanlegir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setjum ekki börn í megrun - hin hliðin.

Ekki skal ég draga neitt úr greinaskrifum Tryggva Helgasonar barnalæknis. Ég er svo hjartanlega sammála því að börn eiga að hafa aðgang að næringaríkri og góðri fæðu.

Reyndar eiga allir rétt á að fá mat. Þetta er eitt af grunnþörfum mannsins.

Mig rak í rogastans þegar ég frétti af því að svo hefur dregið úr styrkjum til Fjölskylduhjálparinnar og Mæðrastyrksnefndar, svo eitthvað sé nefnt, að ekki er hægt að úthluta matvælum til sömu fjölskyldunnar vikulega sem fyrr. Einnig skilst mér að staðan sé slæm hjá Rauðakrossinum og Hjálparstarfi kirkjunnar.

Þetta eru þeir aðilar sem fólk leitar til í sárri neyð sinni og vissulega gera þeir allt sem þeir geta til að koma til móts við fólkið. En allt kostar þetta fjármagn. Fjármagn sem liggur á fárra höndum.

Vei þeim sem auðinn eiga ef þeir styrkja ekki þann sem ekkert á. 

Sveltum ekki börnin. Sveltum ekki gamla, veika og fátæka.

Munum eftir þeim sem sinna mikilvægum hjálparstörfum og aðstoðum þá við að hjálpa örðum!

Það er nefninlega vont að vera svangur.

http://www.fjolskylduhjalpin.net/


mbl.is „Setjum ekki börn í megrun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband